145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[10:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Mér finnst staðan vera mikið áhyggjuefni. Aðalleikendur og gerendur telja sig ekki hafa gert neitt rangt. Þeir eru eiginlega uppfullir af sjálfum sér. Ég hef ekki séð votta fyrir iðrun. Ég hef ekki séð neina afsökunarbeiðni. Ég velti fyrir mér hvort þetta fólk sjái ekki hvað það hefur gert. Líður því virkilega þannig að hér hafi ekkert gerst sem valdi þessu uppnámi, athygli heimspressunnar og kröfu þjóðarinnar um kosningar strax? Er það virkilega þannig að fyrrverandi forsætisráðherra sjái ekki hversu yfirgengilega rangt það er að upplýsa ekki um að kona hans sé kröfuhafi í þrotabú bankanna á sama tíma og hann vinnur að uppgjöri þessara þrotabúa? Ef það er þannig þá er honum auðvitað ekki viðbjargandi. Er það virkilega þannig að þessu fólki finnst í lagi að geyma fé í skattaskjólum af því það hefur verið greiddur af því skattur? Þetta er brenglað. Við eigum ekki að samþykkja skattaskjól, punktur. Ég bjóst við því í stefnuræðu nýs forsætisráðherra að hann mundi lýsa því yfir að tekið yrði í taumana, að hann mundi kveða fast að orði og lýsa því yfir að ný ríkisstjórn ætlaði að ganga í málið, berjast gegn skattsvikum, aflandsfélögum og tryggja það að ríkissjóður fengi hverja þá krónu sem honum bæri. Ekki veitir af.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér hefur aldrei fundist þessi ríkisstjórn hafa mikinn áhuga á því að berjast gegn skattsvikum. Ég vil minna á umræður um kennitöluflakk þar sem svarað var út og suður um að þetta væri svo erfitt. Það veldur vonbrigðum. Þetta er linkind og áhugaleysi.

Síðan monta menn sig af skuldaleiðréttingunni. Við í Bjartri framtíð höfum ítrekað bent á og gagnrýnt þá forgangsröðun sem við teljum alranga. Við þurfum peninga í heilbrigðiskerfið. Mig langar sérstaklega að taka fram stöðu framhaldsskóla. Hvað er í gangi varðandi framhaldsskóla landsins og það fjársvelti sem framhaldsskólarnir búa við? Hvað er hæstv. menntamálaráðherra að gera í þeim málum? Ég hef raunverulegar áhyggjur af þeirri stöðu. Um heilbrigðiskerfið þarf varla að ræða. Við vitum öll hvernig staðan er þar. Nei, setjum endilega 80 þús. milljónir í skuldaniðurfellingu sem við dreifum síðan tilviljanakennt út í þjóðfélagið til fólks sem þarf ekkert á því að halda. Það er ekki rétt forgangsröðun.

Annað er áhugavert í öllu því sem hefur komið upp og það er að við sjáum að það býr ekki ein þjóð í landinu. Það eru sumir, fólk, fyrirtæki, sem geta verið með umsvif erlendis, nýtt sér annan gjaldmiðil. En sömu aðilar tala áfram fyrir íslensku krónunni, því að hún er svo frábær, en þeir nota hana ekki sjálfir. Hvaða hræsni og tvískinnungur er það? Við höfum kallað eftir því í Bjartri framtíð að stjórnvöld móti sér gjaldmiðilsstefnu, við höfum gert það ítrekað. Gjaldmiðilsstefna er þá væntanlega sú að almúginn notar krónuna og þeir sem eru betur settir í þjóðfélaginu fara til útlanda og „díla“ með dollara, evrur og annað. Og jafnvel í skattaskjólum. Þetta er stórfurðulegt, virðulegi forseti.

Ný ríkisstjórn lofar kosningum í haust. Ég heyri að fólkið í þjóðfélaginu segir: Bíddu, loforð um kosningar, er eitthvað að marka það? Eru þetta ekki sömu flokkarnir og lofuðu að ef þeir kæmust til valda fengi þjóðin að greiða atkvæði um það hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Þeir sviku það um leið og þeir settust í ráðherrastólana. Fólk trúir því ekki einu sinni að þeir ætli að halda kosningar í haust. Mér finnst það segja allt um traustið sem þessi ríkisstjórn nýtur. Það er ekki neitt. Menn skipta ekki um nokkrar manneskjur og halda svo áfram og biðjast ekki einu sinni afsökunar. Ég segi: Hvar eru ráðgjafarnir og aðstoðarmennirnir? Látum vera að þið fattið þetta ekki, en er ekki eitthvað fólk þarna sem getur aðstoðað ykkur? Nei, þeir senda óskiljanlegar fréttatilkynningar á erlendu pressuna og án þess að bera þær undir kóng eða prest. Þetta er eins og skrípaleikur. Ef þið fattið það ekki þá búið þið í öðrum heimi. Þetta er sorglegt.

Ég fæ ekkert út úr því að standa hérna og gagnrýna ríkisstjórnina en mér er misboðið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Ég bjóst við meira af ykkur. Ég raunverulega hélt að þið hefðuð að minnsta kosti eitthvað fólk til að ráðfæra ykkur við. Þið hefðuð efni á því, þessir flokkar sem eru búnir að vera til í 100 ár og eiga örugglega einhverja digra sjóði einhvers staðar, kannski einhvers staðar í skattaskjólum. Þetta er alveg fyrir neðan allar hellur.

Við viljum fá kosningar hið fyrsta. Við teljum að sú ríkisstjórn sem nú situr skaði þjóðina. Hún þakkar sér allt sem vel hefur verið gert og það oflæti hef ég tekið fyrir í ræðu. Ég bendi á ræðu mína í síðustu eldhúsdagsumræðum þar sem ég segi, svo að ég vitni í sjálfa mig, að það sé hallærislegt þegar stjórnmálamenn eigni sér allt sem vel er gert en síðan þegar það verður efnahagshrun eða verðbólga fer af stað þá er það eitthvað annað, utanaðkomandi áhrif, eitthvað sem er ekki á þeirra færi. Við vitum alveg að efnahagurinn var að taka við sér. Þetta var allt í rétta átt. Það var ekkert úrslitaatriði hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tækju við eða einhverjir aðrir flokkar, haftamálin voru í ferli í stjórnsýslunni. Við skulum því hætta að tala alltaf eins og engir flokkar nema þessir tveir geti stýrt landinu. Það er ekki þannig. Það hefur komið í ljós. Miðað við hvernig þeir hafa tekið á þessari krísu þá segi ég: Guði sé lof fyrir að það var þó ekki eitthvað enn stærra og alvarlegra sem gerðist. Ég treysti þessu fólki ekki til að halda utan um stórslys, ef það mundi gerast.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en verð að segja að ég er virkilega döpur. Ég vildi að ég gæti sagt ég óskaði þessari ríkisstjórn velfarnaðar, en ég verð að segja að ég óska þess að hún segi af sér hið fyrsta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)