145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Síðustu dagar og vikur hafa verið erfiðar. Krafan um breytingar, breytt vinnubrögð, breytt íslenskt samfélag, er hávær: Kosningar strax. Því þurfum við sem stöndum hér að svara. Í gær sagði góð kona við mig að hún hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ég skyldi velja að halda völdum í staðinn fyrir að vilja rjúfa þing og boða til kosninga. Að ég hefði jafnvel getað styrkt stöðu mína með því að lýsa yfir að kjósa ætti strax.

Og af hverju ætti ég ekki að gera það? Af hverju ekki að hætta þessu bara og boða strax til kosninga? Svar mitt er það sama og hefur hvatt mig áfram allt þetta kjörtímabil. Það er fólkið sem biður um hjálp við að tryggja sér öruggt húsaskjól. Ungi maðurinn sem er á götunni og gistir til skiptis hjá foreldrum vina sinna, einstæði faðirinn sem býr í tíu fermetra herbergi með stöðugum músagangi og getur ekki boðið börnunum sínum í heimsókn til sín, ungi námsmaðurinn sem sér ekki fram á að hann muni nokkurn tíma hafa efni á útborgun í litla íbúð, hvað þá að komast inn á nemendagarða úr bílskúrnum sem hann leigir, eldri konan á örorkubótunum sem neyddist til að flytja inn til dóttur sinnar þar sem hún hafði ekki efni á íbúðinni sinni. Þetta er það sem hvetur mig áfram. Nánast á hverjum degi berast mér símtöl, skilaboð, tölvupóstar frá fólki, venjulegu íslensku fólki, sem býr við húsnæðisvanda. Úrlausn vanda þeirra verður að vera eitt af lykilmálunum á þessu þingi. Því fyrr sem við getum lokið þeim verkefnum, því fyrr getum við kosið.

Við erum komin mjög langt áleiðis. Í þinginu eru þegar fjögur frumvörp frá mér um breytt húsnæðiskerfi. Öll munu þau skipta miklu máli enda unnin í miklu og nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og ekki hvað síst verkalýðshreyfinguna og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þeim er ætlað að efla leigumarkaðinn með nýju félagslegu húsnæðiskerfi eða svokölluðum almennum íbúðum, nýju húsnæðisbótakerfi til handa leigjendum og verulegum breytingum á húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög. Séreignarstefnan er og mun þó áfram vera lykilstef á íslenskum húsnæðismarkaði. Því hefur mikil vinna verið unnin í Stjórnarráðinu að næstu skrefum, vinna sem getur ekki og má ekki fara til spillis, til stuðnings fyrstu kaupendum, þeim sem búa á landsbyggðinni og hvernig við losnum úr viðjum hinnar alræmdu verðtryggðu fasteignalána.

Önnur mál sem ég vil nefna eru breytingar á almannatryggingum og fæðingarorlofinu. Eftir mikla vinnu liggja loksins fyrir tillögur um þessi stóru og mikilvægu kerfi. Ekki er hins vegar samstaða um tillögurnar. Það sem er þó mest samstaða um eru breytingar er varða aldraða, einföldun á bótaflokkum, hækkun lífeyristökualdurs og sveigjanleg starfslok. Meiri ágreiningur er hins vegar um örorkubótakerfið. Allir eru líka sammála um mikilvægi þess að endurreisa fæðingarorlofskerfið.

Vonandi getum við náð saman um það, stjórn og stjórnarandstaða, vonandi getum við lokið þessum mikilvægu málum en það verður einfaldlega að koma í ljós. Í umræðunni hefur ítrekað komið fram að hugsanlega kunni að vera meiri samstaða um þessa forgangsröðun innan stjórnarandstöðunnar en stjórnarflokkanna. Staðreyndin er þó sú að þegar ég kom í ráðuneytið voru engin frumvörp til staðar um húsnæðismál. Vinna þurfti málin frá grunni í miklu og nánu samstarfi með verkalýðshreyfingunni, sveitarfélögum og hagsmunaaðilum og það náðist samkomulag. Nú eigum við aðeins endasprettinn eftir. Frumvörpin eru komin fram. Mikilvægi þeirra verður ekki dregið í efa fyrir fólkið í landinu og við eigum að láta stóru orðin á tyllidögum um hagsmuni lands og þjóðar verða að veruleika og afgreiða þessi mál hratt og vel. Í því treysti ég á góðan vilja allra þingmanna.

Við erum í sárum. Þjóðin er í sárum. Það litla traust sem hafði þó byggst upp frá hruni hrundi og verkefnið á næstunni verður að byggja það upp. Við getum til dæmis gert það með því að sýna samstöðu um að aðstoða heimilin við að koma sér þaki yfir höfuðið.