145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það er undarlegt að vera hér að ræða yfirlýsingu ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar þar sem ekkert nýtt er borið fram. Hér ræðum við enn og aftur sama graut í sömu skál. Hæstv. forsætisráðherra taldi upp málin sem stjórnarmeirihlutinn hyggst vinna að. Ekkert þeirra mála kallar sérstaklega á ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Reyndar tel ég að þeim sé einmitt öllum betur borgið í höndum Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar.

Hér er talað eins og afnám gjaldeyrishafta og gjaldeyrisútboðin sem standa fyrir dyrum séu undirbúin við skrifborð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Auðvitað er það ekki svo. Sem betur fer er þeim ferli stýrt af sérfræðingum í Seðlabankanum og í ráðuneytunum. Hún er reyndar mjög tortryggileg sú áhersla sem lögð er á aðkomu stjórnmálamanna úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að losun gjaldeyrishafta. Í ljósi liðinnar viku er raunar öll aðkoma þeirra tortryggileg sem viðkemur krónu og erlendum gjaldmiðlum.

Vandinn sem blasir við í húsnæðismálum verður ekki leystur nema með aðkomu stjórnvalda. Þar skiptir mestu húsnæðisstuðningur sem munar um fyrir þá sem minnst hafa handa á milli og að sá stuðningur sé jafnt við þá sem vilja eiga, leigja eða velja að vera í félagslegu húsnæðiskerfi. Framboð á góðu húsnæði verður að auka verulega. Helsta hindrun þess að mál félags- og húsnæðismálaráðherra nái fram að ganga er að Sjálfstæðisflokkurinn styður þau ekki. Því fyrr sem húsnæðismál komast úr höndum ríkisstjórnarinnar því betra.

Heilbrigðismál eru nefnd til sögunnar sem mál sem þurfi sem lengsta aðkomu ríkisstjórnar ríka fólksins þó að almenningur sé sammála um að þar eigi þau alls ekki að vera. 85.000 manns hafa kallað eftir öðrum áherslum og krafist þess að auknu fé sé varið til heilbrigðisþjónustu. Því hefur verið svarað með því að bjóða út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og boða breytingar á gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu sem gerir ekki ráð fyrir auknum fjármunum heldur bara annars konar verðlagningu. Hvoru tveggja er óásættanlegt og mætir með engum hætti kröfum almennings. Það stendur ekki til að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni heldur bara að búa til nýja verðskrá.

Í dag þurfa alvarlega veikir einstaklingar að greiða hundruð þúsunda úr eigin vasa og langveikir greiða verulegan hluta af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum til heilbrigðisþjónustu. Óhófleg gjaldtaka leiðir til þess að þeir tekjulægri neyðast til þess að sleppa nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Þessu verður að breyta ef íslenskt heilbrigðiskerfi á að vera fyrir alla. Kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur á síðustu þremur árum nær tvöfaldast.

Í dag standa heimilin undir 20% af öllum heilbrigðisútgjöldum, eða um 35 milljörðum kr. á ári. Gjöldum á sjúklinga fylgir sú hætta að fólk dragi það of lengi að fara til læknis. Gjaldtaka eykur á misskiptingu og hefur alvarleg, félagsleg og heilsufarsleg áhrif. Heilbrigðisþjónusta á að vera ókeypis fyrir alla. Aðeins þannig verður þjónustan aðgengileg fyrir alla Íslendinga. Það mun hafa sparnað í för með sér fyrir ríkissjóð til lengri tíma og bæta öryggi og fjárhag heimilanna í landinu. Ásamt því að taka á greiðsluþátttöku sjúklinga er áríðandi að skapa Landspítalanum viðunandi aðstæður og heilsugæslum úti um allt land. Einnig þarf að gera raunhæfa áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ég er sammála meiri hluta landsmanna um að heilbrigðiskerfið eigi að vera sem mest í opinberum rekstri.

Fleiri brýn mál þarfnast aðkomu jafnaðarmanna. Til dæmis þarf að taka á kjörum aldraðra og öryrkja, barnafjölskyldur eiga að fá sambærilegan stuðning og annars staðar á Norðurlöndunum og fæðingarorlofið þarf að lengja í tólf mánuði. Gott aðgengi að menntun fyrir alla er grundvallaratriði. Það þarf að klára ferlið sem lagt var upp með á síðasta kjörtímabili um samningu nýrrar stjórnarskrár og leggja nýja fullbúna stjórnarskrá fyrir þjóðina. Það eru engar líkur á að það gerist hjá ríkisstjórn þeirra flokka sem nú hanga eins og hundar á roði á völdunum. Okkur vantar einnig sárlega raunhæfa byggðastefnu og fjármálakerfi sem hentar þörfum fólksins og fyrirtækja. Síðast en ekki síst á að gera skýra kröfu um beinar tekjur af öllum auðlindum þjóðarinnar og hlutdeild sveitarfélaga í tekjum ríkisins af auðlindum er sjálfsögð krafa. Ekkert af þessum málum er þessari nýju gömlu ríkisstjórn treystandi fyrir. Ríkisstjórn ríka fólksins er ekki treystandi fyrir stóru málunum enda nýtir hún jákvæðar hagtölur til að auka misskiptingu í landinu og ójöfnuð. Hún er rúin trausti og þarf að fara frá strax.