145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Sú ríkisstjórn sem nú hefur verið sett á koppinn getur aldrei orðið annað en málamyndagjörningur. Það er skýlaus krafa almennings í landinu að þing verði rofið strax og að fram fari lýðræðislegar kosningar. Núverandi stjórnarmeirihluti er rúinn öllu trausti og atburðarás liðinna daga sýnir betur en nokkuð annað að vanhæfni ráðamanna núverandi stjórnarflokka við að takast á við framgöngu og gjörðir stjórnmálamanna úr eigin röðum, sem haft hafa fjármuni í skattaskjólum og haldið því leyndu gagnvart þingi og þjóð, er algjör.

Siðferðislega er þetta kolrangt en gengur einnig þvert á hagsmuni almennings í landinu og opinberar mikla tvöfeldni gagnvart kjörum almennings í landinu og samfélagslegri ábyrgð og hefur valdið algjörum trúnaðarbresti gagnvart þingi og þjóð. Engin auðmýkt eða afsökunarbeiðni hefur komið fram hjá ráðherrum eða stjórnarliðum, þvert á móti hafa þeir sem hafa tjáð sig um eignir ráðamanna í aflandsfélögum varið það með öllum ráðum fram á síðustu stundu. Eftir afsögn fráfarandi forsætisráðherra hefur engum þótt ástæða til að sýna iðrun og viðurkenna að eitthvað væri athugavert við að fara með fjármuni í skattaskjól og taka ekki þátt í samfélagslegri uppbyggingu.

Allar þjóðir berjast gegn skattaskjólum en íslenskir ráðamenn stinga hausnum í sandinn og finnst ekkert athugavert við lágskattasvæði og skattaskjól því að einhvers staðar verða peningarnir að vera, eins og núverandi hæstv. forsætisráðherra komst svo smekklega að orði á dögunum.

Vegna rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrana um félög í skattaskjólum og í kjölfar mikilla mótmæla og þrýstings frá almenningi, stjórnarandstöðunni og alheimspressunni voru ráðamenn þvingaðir til að fórna forsætisráðherra og þeir halda nú að með ráðherraskiptum sé allt orðið hvítþvegið og að áfram sé hægt að halda um valdataumana eins og ekkert hafi skeð og keyra sín mál í gegn með traustum meiri hluta eins og endurtekið hefur verið hér oft. Ja, hvílíkur hroki kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér áðan. Það var ekki eins og hann væri að kalla eftir einhverri samstöðu með stjórnarandstöðunni í málunum sem eru fram undan ef marka má orð hans um hvort yfir höfuð eigi að verða kosningar í haust.

Nei, hlutirnir ganga ekki svona fyrir sig á eyrinni. Það ríkir mikið vantraust til allrar ríkisstjórnarinnar sem of seint er að lappa upp á og fleiri ráðherrar hafa verið með félög í skattaskjólum eins og alþjóð veit. Í hinni ótrúlegu atburðarás undanfarna daga og vikur sést hve miklu máli góðir rannsóknarblaðamenn, eins og Jóhannes Kristjánsson, skipta fyrir lýðræðisumræðu í þjóðfélaginu. RÚV, rannsóknarblaðamenn innlendir sem erlendir og aðrir fjölmiðlar sem komið hafa að því að fletta ofan af eignarhaldsfélögum í skattaskjólum eiga heiður skilinn. Sýnir þetta mál vel hve mikilvægt er að styrkja og efla sjálfstæði fréttastofu Ríkisútvarpsins og rannsóknarblaðamennsku almennt vegna lýðræðis og almannahagsmuna í landinu.

Ríkisstjórnin telur sig vera ómissandi og að hún þurfi að ljúka svo brýnum verkefnum að hún geti alls ekki farið frá strax, í fyrsta lagi einhvern tímann í haust ef stjórnarandstaðan verður samstarfsfús við að klára málefnaskrá hennar — ja, hérna, málefnaskrá hennar sem er ansi skrautleg. Það er líka furðulegt að hún hafi á þessum þrem árum ekki komið meiru í verk en raun ber vitni. Nú ætlar hún undir þessum aðstæðum að skrúfa allt í gegn og hafa stjórnarandstöðuna í þumalskrúfu og allir eiga að vera kátir og glaðir af því að þetta sé svo frábær ríkisstjórn — eða hitt þó heldur. Ég held að menn ættu að skammast sín fyrir slíkan hroka gagnvart þjóð sinni á þessum örlagatímum.

Eins og ég segi er langhreinlegast að ganga til kosninga núna og að ný stjórn með endurnýjað umboð kjósenda takist á við þau verkefni sem fram undan eru sem vissulega eru mörg og brýn. Vinnan við afnám hafta, sem hófst á síðasta kjörtímabili, er í góðum farvegi og enginn sem situr á þingi ætlar að vinna gegn þeirri vinnu sem þar er farin í gang. Það mun ekki skaðast þó að það verði ríkisstjórnarskipti. Þessi nýja ríkisstjórn dugar ekki til neinna verka. Orðspor Íslands og trúverðugleiki innan lands sem erlendis hefur stórskaðast og eingöngu lýðræðislegar kosningar geta unnið gegn þeim skaða.

Erlenda pressan segir að fólk vilji losna við ríkisstjórnarflokkana og að þeir hafi misst traust almennings. Það er hárrétt mat og engin ráðherrahrókering bjargar því. Öflug mótmæli og réttlætiskennd almennings sýnir að hann vill eitthvað annað og allt annað. Þessi ríkisstjórn er ekki á sumar setjandi yfir höfuð, hennar tími er liðinn og engin eftirspurn er eftir henni nema hjá valdaþyrstum stjórnmálamönnum sem þekkja ekki sinn vitjunartíma. Ríkisstjórnin á að fara frá strax.