145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er komin ný ríkisstjórn. Hún er reyndar alveg sú sama og sú sem var hér í gær ef frá er talin ein breyting, einn er farinn og annar er kominn. Ég vil byrja á að bjóða Lilju Dögg Alfreðsdóttur, nýjan hæstv. utanríkisráðherra, velkomna til starfa. Megi henni farnast vel í öllum hennar störfum fyrir Íslands hönd.

Einn er farinn, hinir sitja allir eftir. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sagt af sér ráðherraembætti. Það hefur hann reyndar gert án allra útskýringa. Hann hefur látið hjá líða að rekja málið, leggja öll spilin á borðið af heiðarleika og auðmýkt. Hann hefur bara sleppt því. Það er samt ekkert launungarmál að afsagnar hans var krafist með svo sterkum hætti af þjóðinni að hann fór að lokum frá. Atburðarás undanfarinna daga hefur verið með svo miklum ólíkindum að þegar maður sest niður og hugsar til baka truflar það mann auðvitað hve mörgum spurningum er enn ósvarað. Það truflar mann hve mörgum spurningum í kringum öll þessi spillingarmál, bæði hæstv. fráfarandi forsætisráðherra og annarra ráðherra, er enn ósvarað. Við munum krefjast svara. Við munum krefjast heiðarleika. Annars er ekki hægt að tryggja þann stöðugleika í þessu landi sem okkur er svo mikilvægur. Traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum er forsenda efnahagslegs stöðugleika, algjör forsenda velferðar þjóðarinnar. Aðalforsendan er að þjóðin geti fengið að bera traust til þeirra fulltrúa sem hún hefur kosið á þetta þing.

Hvað var fjölskylda forsætisráðherra að gera með félag í skattaskjóli? Hvað gera svona félög? Það liggur alveg ljóst fyrir, skattaskjól bjóða upp á leynd og lægri skatta en þá sem finnast á þessu landi, lægri skatta en þá sem fráfarandi forsætisráðherra og ríkisstjórn hans öll boðar öllum hinum að borga hér á þessu landi. Lekinn á Panama-skjölunum hefur sýnt svo skýrt og kristaltært að það eru mismunandi leikreglur eftir því hver maður er í okkar samfélagi. Fæstir meðaljónar hafa upplifað að þjónustufulltrúinn þeirra í bankanum spyrji þá hvort ekki sé sniðugt að geyma orlofsreikninginn sinn á Tortólu. Skýringar ráðamanna hafa verið á þá leið að það hafi verið einhver svona ráðgjafi í bankanum sem hafi sett upp eitthvert svona félag, eiginlega bara án þeirra vitundar. Margir hafa eiginlega verið gapandi hissa á því. Svona skilst manni að hæstv. fjármálaráðherra hafi lent í þessu. En hvernig er það, var ekki hægt að kaupa fasteign í Dúbaí fyrir gjaldeyrishöftin án þess að fara í gegnum aflandsfélag? Ég man að ég gat millifært sumarlaunin mín yfir í Nordea-bankann í Svíþjóð þegar ég nam þar. Var þetta eitthvað öðruvísi með Dúbaí? Gátu íslenskir bankar ekki millifært þangað? Ég bara spyr. Ég þyrfti að fá að skilja þetta aðeins betur, en svörin og afsökunarbeiðnirnar hafa algerlega látið á sér standa.

Herra forseti. Einn er farinn en hinir sitja allir eftir. Og hvað hafa þeir gert? Tveir þeirra hafa líka átt félag í skattaskjóli. Allir hafa ráðherrarnir, a.m.k. á síðustu dögum, vitað hvernig í málunum lægi. Allir segjast þeir aðspurðir samt sem áður treysta fráfarandi forsætisráðherra. Ég treysti ekki svona ríkisstjórn. Ég treysti ekki fólki sem hefur þetta mat. Það er í besta falli annaðhvort bullandi meðvirkt eða dálitlir kjánar. Hvorugt gengur við stjórn heils lands.

Hæstv. nýr forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra halda því statt og stöðugt fram að það sé mikilvægast eftir allt þetta umrót að þeir sjálfir stýri skútunni áfram því að annars fari bara allt í rugl. Staðreyndin er sú að þessi skúta hefur nú þegar beðið skipbrot. Þessi veruleikafirring hræðir mig, að þeir sjái það ekki. Mikilmennskan er svo mikil að hún jaðrar við brjálæði, valdafíknin svo mikil að ásýnd og orðspor landsins á alþjóðavísu skiptir engu.

Þjóðin mun ekki láta bjóða sér þetta. Þetta dramb þessara stjórnarmanna mun verða þeim að falli. Ég lýk þessari ræðu minni með þeim orðum að við vitum að dramb er falli næst og það er það sem gerist næst.