145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við í gær, 7. apríl. Það er mjög mikils virði að henni takist vel upp í störfum sínum, störfum í þágu okkar allra. Vorblær var í lofti en að vísu nokkuð hvasst. Það er ýmislegt í umhverfinu sem bendir til jákvæðra teikna fyrir þessa nýju ríkisstjórn. Með setu hæstv. utanríkisráðherra í ríkisstjórninni eru konur í meiri hluta fyrir Framsóknarflokkinn. Það er í fyrsta sinn. Fyrir mig sem í hartnær hálfa öld hef verið viðriðin stjórnmál og þurft að berjast innan flokks sem utan fyrir framgangi kvenna í stjórnmálum er þessi staða einkar gleðileg.

Ný ríkisstjórn þarf að takast á við fjölmargar áskoranir. Hér hafa verið nefnd h-in þrjú fyrst og fremst, að við viljum stuðla að afnámi hafta, húsnæðismálaumbótum og heilbrigðiskerfinu. Framsóknarmenn hafa þegar orðið við nokkrum áskorunum. Í upphafi vikunnar voru gerðar hér kröfur, vikan er ekki liðin, um að forsætisráðherra viki, að kosningum yrði flýtt og að utanaðkomandi aðili kæmi inn í ríkisstjórn. Við þessu öllu er orðið. Því er sárt að heyra á Alþingi að um leið er talinu breytt og beint í aðrar áttir. Það minnir mig á óþekk og heimtufrek börn.

En við skulum ekki dvelja við liðna viku eða fortíðina. Við horfum til framtíðar. Mig langar að víkja að umhverfismálunum sem ég tel mál málanna, ekki hvað síst í framtíðinni. Þessi málaflokkur snertir alla, málaflokkur sem snertir einnig efnahagsmál heimsins. Þannig eru þau einnig mjög mikilvæg á sviði utanríkismála. Hvorki einstaklingar, heimili né fyrirtæki komast hjá að huga að þeim í margvíslegum skilningi, hvar sem þau búa.

Þegar ég tók við þessu embætti valdi ég mér tvö einkar lummó orð, mundi unglingurinn segja, nýtni og umgengni. Í þessum tveimur gömlu orðum felst þó mikið. Þau hafa verið lykilorð hjá mér í ráðuneytinu eins og ég ætlaði mér. Þau eiga einkar vel við þegar hugað er að loftslagsmálum sem og náttúrunni í heild, en þau eiga við í öllu lífinu og þau hafa öðlast gildi á nýjan leik. Við fórum frá þessum gildum. Við gleymdum þeim. Það hefur verið leiðarljós í gegnum aldirnar á Íslandi að nýta hlutina, nýta það sem við höfum í höndunum, og ganga vel um, ganga vel um allt, ganga vel um náttúruna, fjármálin, ganga bara vel um það sem hefur gildi í lífinu.

Við í umhverfisráðuneytinu höfum markvisst unnið að því að skapa langtímaáætlanir til að búa til stefnufestu. Við höfum lagt fram sóknaráætlun í loftslagsmálum til framtíðar. Hér hefur Alþingi samþykkt innviðauppbygginguna og jafnframt landsskipulagsstefnuna. Bæði þessi frumvörp horfa til framtíðar. Ég er þakklát fyrir það vegna þess að það auðveldar okkur að geta haft skýra stefnu og sýn og akkúrat þessa dagana erum við að velja verkefnisstjóra varðandi bæði þessi verkefni.

Varðandi landsskipulagsstefnuna langar mig að segja að þar er einnig mikil vinna við skipulagningu miðhálendisins sem tekur til víðerna, vega og bygginga sem og uppbyggingar ferðaþjónustumannvirkja. Einnig vil ég geta þess sem hefur löngum verið deilt um hér, vinnu verkefnisstjórnar um vernd og orkunýtingu sem er með kynningu þessa dagana vítt og breitt um landið. Það er mál sem mikilvægt er að unnið sé til hlítar. Það er ekki hægt að segja annað en að á kynningarfundinum í Hörpu um það umdeilda mál hafi verið tekið á því af málefnalegri yfirvegun.

Verkefnin í ráðuneytinu eru af margvíslegum toga, fjölbreytt og skemmtileg, og allir þar innan dyra skynja vaxandi áhuga á málaflokknum. Við vinnum að því með stofnunum ráðuneytisins að styrkja og efla starfið, samþætta verkefni og stuðla að sameiningum. Ég vona innilega að Alþingi nái fyrir sumarleyfi að koma þeim málum í gegn og geri það í þágu náttúrunnar sem við öll viljum vernda, frá fjöru til fjalla.