145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur nú flutt okkur stefnuræðu sína og farið yfir helstu stefnumál ríkisstjórnar sinnar.

Það kemur svo sem ekki á óvart en stefnan er að halda áfram á sömu braut og ríkisstjórnin var á fyrir viku eins og ekkert hafi í skorist. Aðdragandi þessarar ríkisstjórnarmyndunar er hins vegar með þeim ólíkindum að allir sjá hve veikt hún stendur. Svo veikt að frá myndun hennar hefur hún verið á sífelldu undanhaldi. Enda var það eitt af því fyrsta sem fram kom á blaðamannafundi þegar loksins var komin niðurstaða um það hver tæki við forsætisráðuneytinu að hún mundi einungis starfa til haustsins. Upp frá því hefur svo gengið á með samfelldum skeytasendingum ósáttra stjórnarliða svo sundurlyndið blasir við hverjum sem það vill sjá.

Ríkisstjórnin reynir að þrauka. Ekki vegna þess að hún hafi erindi heldur vegna þess að hún treystir sér ekki til að mæta dómi kjósenda strax og vonast til þess að það dragi úr reiðinni í samfélaginu.

Vilji menn horfa bjartsýnisaugum á þessa nýju ríkisstjórn þá er það vissulega nokkur framför frá þeirri fyrri að ráðherrum sem tengjast aflandsfélögum hefur fækkað um 33%. Það er þó engan veginn boðleg niðurstaða.

Það hefur ítrekað komið fram þegar gengið er á hæstv. forsætisráðherra sem og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að þeir telja ekkert að því að fólk setji eigur sínar í félög í lágskattaríkjum, öðru nafni skattaskjól, séu skattar greiddir af þeim. Vandinn er hins vegar sá líkt og til að mynda skattrannsóknarstjóri hefur margoft bent á að það er ekki hægt að sannreyna að skattskil séu rétt.

Skattar eru hins vegar lykillinn að velferð og jöfnuði. Skattar eru forsenda þess að hér geti ríkt velferðarsamfélag. Skattaskjól grafa hins vegar undan velferð og draga úr jöfnuði. Ef allir styngju peningunum sínum undan og settu þá í skattaskjól væri hér ekkert velferðarsamfélag. Þetta er kjarni málsins.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ætíð talað máli samneyslu, velferðar og jöfnuðar, og því aldrei verið feimin við að tala fyrir skattheimtu. Markmið okkar er og hefur alltaf verið að skapa samfélag þar sem allir leggja til eftir getu og uppskera eftir þörfum. Það er þess vegna óþolandi þegar þeir allra ríkustu í samfélaginu koma sér undan því að borga sína skatta til samfélagsins. Slíkt á ekki að líðast og við, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, eigum alltaf að vera leiðandi í þeirri umræðu. Ef það eru lagalegar gloppur sem þarf að stoppa upp í svo ríkið verði ekki af skatttekjum þá eigum við að bæta þær.

Ríkisstjórn sem tekur til starfa við þessar kringumstæður á að sjálfsögðu að hafa slíkt á stefnuskrá sinni. Því miður minntist hæstv. forsætisráðherra ekki einu orði á þetta í stefnuræðu sinni. Meðal annars það að ekki virðist vera nokkur vilji til að fara yfir skattamálin, fara í rannsókn á því hverjir það eru sem eru að koma undan sköttum og hvernig þeir fara að því, er ástæðan fyrir því að við verðum að kjósa strax og fá til valda fólk sem hefur áhuga og metnað til þess að við getum treyst velferðarsamfélag okkar þar sem að allir geta haft það gott óháð tekjum eða hag að öðru leyti.