145. löggjafarþing — 94. fundur,  8. apr. 2016.

breytingar á ríkisstjórn.

[11:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Manni líður svolítið eins og maður sé að reyna að segja manneskju að hún sé með rosalega stóra saumsprettu á buxunum, í klofinu, verði að fara heim til sín að skipta um buxur en manneskjan svarar bara og segir: Nei, þetta eru mjög góðar buxur og ég er alveg frábær og það getur ekki verið að það sé saumspretta þarna. Þetta er þannig. Þetta er bara einhver umræða þar sem er eins og við séum ekki alveg að skilja hvert annað.

Það er ekkert deilt um að það eru mikilvæg verkefni fram undan. Það er fullt af góðu fólki í þessum þingsal og í þjóðfélaginu sem getur tekist á við þessi verkefni. Sum erum við sammála, önnur ekki. Það sem hér er deilt um er það hvort það sé alvarlegt að fráfarandi hæstv. forsætisráðherra hafi orðið uppvís að því að sitja beggja megin borðs í einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, sem er uppgjör gömlu búanna. Hann leyndi því að fjölskylda hans og hann sjálfur á tímabili var kröfuhafi með umtalsverðar fjárhæðir í gömlu bankana.

Spurningin blasir við: Er þetta í lagi? Ætlar enginn að segja af hálfu stjórnarflokkanna: Þetta er auðvitað ekki í lagi og varðar að öllum líkindum við 2. gr. stjórnsýslulaga og varðar alveg augljóslega við siðareglur Framsóknarflokksins sem ég var að lesa þar sem segir að menn eigi að greina frá öllum persónulegum hagsmunum sem kunna að hafa áhrif á þeirra störf. Ég var að leita að siðareglum Sjálfstæðisflokksins en ég fann þær ekki. Er það í lagi að vera hér í þingsal í rökræðum um gjaldmiðilinn og mæta bara með hroka og yfirgangi þeim rökum okkar sem viljum taka upp annan gjaldmiðil en vera síðan sjálfur með sinn fjölskylduauð í annarri mynt? Það er kannski ókei að gera það en segðu þá alla vega frá því vegna þess að það hefur nú svolítið mikla þýðingu í þessari umræðu. Er þetta ekki hræsni? Ætlar enginn í stjórnarflokkunum að taka undir það? Er þetta í lagi? Er í lagi að eiga pening í skattaskjólum bara ef maður gefur upp til skatts? Það er engin leið til að sannreyna hvort fólk sem er með pening í skattaskjólum gefur upp til skatts.

Viljum við — og þetta er aðkallandi spurning sem stjórnarflokkarnir verða á þessum tímapunkti að svara — að allir Íslendingar sem eiga pening mundu geyma hann á Tortólu? Væri það gott samfélag? Verða ekki stjórnmálamenn að fara á undan með fordæmi? Er þetta fordæmið? Það er ótrúlegt veganesti fyrir nýja ríkisstjórn að svara ekki þessari spurningu heldur segja eiginlega og gefa í skyn að þetta sé í lagi. Getum við unað því að hafa fjármálaráðherra í landinu sem fer með yfirumsjón skattheimtu sem finnst þetta í lagi?

Kæru landsmenn. Þetta er svo augljóst. Það er svo átakanlegt að ríkisstjórn sem ætlar að starfa hér og stjórna málum skuli ekki fatta þetta og ekki bara það heldur er málflutningurinn sem er borinn á borð: Nei, nei, það gerðist þarna eitthvað smá en við erum bara svo frábær að það yrði mjög hættulegt ef við mundum fara frá. En bara það að þau fatti ekki hver eru augljósu svörin við þessum spurningum er röksemd í sjálfu sér fyrir því að þau eru ekki frábær. Þau eru augljóslega ekki frábær. Ágætt fólk margt hvert en bara ekki frábært. Þau eru ekki nauðsynleg til að klára þau verkefni sem fram undan eru. Bara atburðarás, allt klúðrið í þjóðfélaginu á undanförnum dögum í boði fráfarandi ríkisstjórnar, og núverandi ríkisstjórn hefur ekki beðist afsökunar á, allt það klúður er líka röksemd fyrir því að auðvitað er þetta fólk ekki frábært og ekki ómissandi til að klára þau verkefni sem fram undan eru.

Menn nefna hér alls konar dæmi eins og til dæmis það að endurreisa þurfi fæðingarorlofskerfið; það var ein röksemd sem kom frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. En hvað gerðu menn í byrjun kjörtímabilsins? Menn breyttu fæðingarorlofskerfinu og námu úr gildi lög sem lengdu fæðingarorlofið. Ríkisstjórnin er því ekki búin að segja okkur hvað hún vill gera við fæðingarorlofið. Menn vilja blása í eitthvert nýsköpunarátak. Var það ekki fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar að hætta við slíkt átak? Hefur ríkisstjórnin þá ekki sagt okkur hug sinn í þeim efnum? Menn tala um að afnema höft. Þá skulum við hafa eitt á hreinu. Það hefur verið fullkomin samstaða um það, meðal flestra stjórnmálaflokka á Íslandi, hvernig afnema eigi höft. Það byggir meðal annars á viðamiklum og mikilvægum lagasetningum á síðasta kjörtímabili. Ég hef upplifað það verkefni allt saman þannig að það hafi seinkað því ferli að það var ágreiningur á milli ríkisstjórnarflokkanna um hvaða leið ætti að fara. Það lá alveg fyrir í upphafi kjörtímabilsins að það væri hægt að fara þá farsælu leið sem var valin. Nú velti ég fyrir mér, vegna þess að það voru hérna ákveðnir aðilar á meðal stjórnarflokkanna sem vildu fara svokallaða gjaldþrotaleið, hún hefði gagnast þeim Íslendingum sem eiga erlendar kröfur á bankana. Hefði ekki verið mikilvægt að vita á þeim tímapunkti að hæstv. forsætisráðherra var kröfuhafi í bankana með erlendar kröfur? Þetta er forkastanlegt og ótrúlegt að menn skuli ekki upplifa þetta sem algert brot á öllum eðlilegum lögum og reglum um það hvernig eigi að umgangast svona mál.

En hver er iðrunin? Á hverju er ríkisstjórnin reist? Hvað er að gerast hérna? Er þetta ný ríkisstjórn? Er það? Er einhver stefnuyfirlýsing? Ég hef ekki séð neina stefnuyfirlýsingu. Ég er búinn að leita á netinu. Er hún á Tortólu, stefnuyfirlýsingin? Eða hvar er stefnuyfirlýsing? Það eru búnir að gerast hérna hlutir sem kalla á að menn segi skýrt hvað menn ætli að gera hérna í ákveðnum málum, hvernig menn ætli að svara ákveðnum spurningum og menn vísa bara í gamla stefnuyfirlýsingu frá Laugarvatni 2013. Engin ný stefnuyfirlýsing. Eru flokkarnir búnir að spyrja sína flokksmenn hvort það eigi að stofna þessa ríkisstjórn á þessum dramatíska punkti í Íslandssögunni? Það stendur í lögum beggja flokka, Sjálfstæðisflokkurinn á að spyrja flokksstjórn sína hvort það eigi að stofna ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn á að spyrja miðstjórnina. Er búið að því? Er búið að fá samþykki flokkanna fyrir þessari ríkisstjórn? Það er alveg lýsandi. (Forseti hringir.) Ég hef ekki heyrt af þessum fundum. Það er lýsandi fyrir drambið sem hér er, sem er falli næst, að þessir flokkar spyrji ekki einu sinni sína eigin flokksmenn um það hvað er skynsamlegt að gera á þessum tímapunkti og koma síðan hérna upp og halda bara að þeir séu Móðir Teresa og þurfi bara mjög nauðsynlega að vera hér við stjórnvölinn. Ég hef bara aldrei heyrt annað eins.