145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[13:48]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu um vantraust á ríkisstjórnina og svo að það sé á hreinu styðjum við í Bjartri framtíð tillöguna heils hugar. Þessi ríkisstjórn fær á sig vantrauststillögu á fyrsta degi, sem er harla óvenjulegt. En það er ekki vegna verka hennar í morgun og ekki einu sinni vegna þeirra verka sem fyrri útgáfa af þessari ríkisstjórn vann sem við leggjum fram vantrauststillögu heldur er það í raun og veru vegna þess hvernig ríkisstjórnin varð til, hvernig hún kom undir.

Ég held að við verðum að spyrja okkur um það, ekki hvaða atriði ríkisstjórnin ætlar að fara í, ekki að velta fyrir okkur eða rífast um afrek síðustu ríkisstjórnar, ég held að við verðum að spyrja okkur hvar við séum stödd. Af hverju erum við stödd hérna með nýja ríkisstjórn? Það er engin tilviljun, það er ekki til þess að lífga upp á vorið sem ákveðið var að setja nýtt ráðuneyti.

Siðferðislegar spurningar eru komnar upp á borðið aftur í íslenskri pólitík og íslensku samfélagi og það er ekki nein tilviljun. Það er vegna þess sem gengur yfir okkur, vegna þess sem gekk yfir okkur síðustu daga, vegna þeirra upplýsinga sem komu í ljós um helgina. Tengsl íslenskra ráðamanna við þær upplýsingar eru með ólíkindum. Okkur þingmönnum er ofboðið og ekki aðeins þingmönnum stjórnarandstöðunnar heldur finnum við það líka á stjórnarþingmönnum. Þjóðinni er ofboðið. Við finnum að Ísland og okkar góða þjóð er aðhlátursefni um allan heim. Við stjórnarandstöðuþingmenn sem höfum staðið í þinghúsinu að bíða eftir upplýsingum eða beðið eftir að sjá glitta í ráðherra eða stjórnarþingmenn höfum átt í fullu fangi með að tala við erlenda fjölmiðlamenn sem spyrja okkur hvað sé eiginlega í gangi, hvað þetta eigi að þýða, hvað geti mögulega gerst næst.

Við þær aðstæður komast formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, og formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að þeirri niðurstöðu að besta svarið við ástandinu sé að koma með nýja útgáfu af sömu ríkisstjórn, koma síðan upp og endurtaka loforð um að lækka tryggingagjaldið. Engum dettur í hug að biðjast afsökunar eða reyna að axla ábyrgð á því sem á undan er gengið. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt, virðulegi forseti.

Í ræðu sinni í morgun sagði hæstv. forsætisráðherra að efnahagsmál í breiðum skilningi væru áherslumál nýrrar ríkisstjórnar. En hvað um siðferðismál? Ég heyri ekki þúsundir manna á Austurvelli heimta meiri pening. Ég heyri ekki betur en að ákallið sé um siðbót. Vissulega skulum við öll taka það til okkar, en vorum það við öll sem birtumst á listum yfir fólk sem átti fé í alþjóðlegum skattaskjólum síðustu helgi? Nei, því miður. Mér finnst mjög merkilegt að upplifa að ný ríkisstjórn, sem segist koma fram fyrir þjóðarhag, til að leita sátta, til að laga ástandið í íslensku þjóðarsálinni, skuli ekki einu sinni láta sér detta í hug að sýna þá auðmýkt að biðjast afsökunar á því sem á undan er gengið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Að hún skuli hamra á því að þessir tveir flokkar séu þeir einu sem geti komið að verkum er eiginlega hálfdónalegt með tilliti til sögunnar. Þess utan má spyrja sig: Hver hafa verk þessarar ríkisstjórnar verið síðustu mánuði? Það hafa varla nokkur mál ratað inn í þingið. Við höfum verið verklaus að ræða um EES-mál frá áramótum vegna þess að það kemur ekkert frá ríkisstjórninni, enda virðast þessir flokkar ekki vera sammála um eitt eða neitt nema nauðsyn þess að þeir haldi völdum, vegna þess að þeir hafa 38 þingmenn á bak við sig. Ég vil minna á að það eru 63 þingmenn á Alþingi Íslendinga. Það þarf einfaldan meiri hluta þeirra til að samþykkja mál. Það eru svo ótalmörg mál þar á meðal, nokkurn veginn hvert einasta skref í afnámi hafta, sem hafa verið samþykkt af meiri hluta Alþingis í breiðri sátt þvert yfir stjórn og stjórnarandstöðu. Ég gef því miður lítið fyrir þá afsökun fyrir því að nauðsyn sé að þessir flokkar sitji áfram við stjórnvölinn.

Ég fagna því að ný ríkisstjórn gefi í skyn að kosningum verði flýtt en því miður upplifði ég það fyrir kosningarnar 2013 að sömu flokkar lofuðu kosningum um áframhald eða stopp á aðildarviðræðum við ESB. Það var svikið af flokkunum strax eftir kosningar. Ég spyr mig: Af hverju eigum við að treysta flokkunum núna? Það þarf alla vega að gera tilraun til að segja mér það.

Ástæðan fyrir því að við leggjum fram vantraust á ríkisstjórnina er vegna þess hvernig hún er til komin, vegna þess hroka sem býr að baki því að koma fram með hana á þennan hátt. Það að ætlast til þess að hægt sé að semja um sátt í íslensku samfélagi í einhverju „fiffi“ á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í bakherbergjum og stigum í þessu húsi er þvílíkur hroki gagnvart íslenskri þjóð að ég veit ekki hvað ég get sagt. Krafan um kosningar strax er ekki til komin einungis vegna þess að einhvern langar svo mikið að styðja við stjórnarandstöðuna.

Hæstv. fjármálaráðherra spurði áðan hvort við yrðum hérna áfram sem einstaklingar eftir tíu ár, ekki að það skipti nokkru máli. En ég spyr mig: Verðum við hérna eftir tíu daga?

Virðulegur forseti. Ég styð vantraust á þessa ríkisstjórn. Guð blessi Ísland og allt það, en tröll taki þessa ríkisstjórn.