145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Íslendingar. Við stöndum frammi fyrir grundvallarspurningu um stöðu Íslands í heiminum. Viljum við vera vestrænt lýðræðisríki eða viljum við vera í hópi með spilltustu ríkjum veraldarinnar, Rússlandi, Úkraínu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum?

Þegar uppræta á spillingu dugar engin hálfvelgja. Þá þarf að gefa skýr svör. Þar dugar ekki að láta einn hætta að hluta um tíma en hina sitja áfram. Það dugar ekki að ætla að kjósa bráðum. Það þarf að kjósa strax og menn verða að segja af sér svo að skilaboðin séu skýr. Vissulega eru þau viðbrögð sem komin eru skárri en Rússland en það er ekki nóg að vera skárra en Rússland. Þetta snýst um það í hvers konar samfélagi við viljum búa. Viljum við búa í samfélagi þar sem menn verða efnaðir í pólitík og spillingu eða í samfélagi þar sem menn efnast í frjálsum viðskiptum á opnum markaði? Því miður er það þannig að forréttindastéttin á Íslandi hefur að verulegu leyti efnast fyrir sakir pólitískrar fyrirgreiðslu, ókeypis aðgangs að sameiginlegum auðlindum og með því að eignast fyrir lítið ríkisfyrirtæki í gegnum pólitíska fyrirgreiðslu í lokuðum ferlum.

Þessi forréttindastétt hefur ofan á þetta falsað fiskverð og faktúrur og komið fé sínu sem hún hefur eignast hér á aflandseyjar. Hún tók auðæfi sín rétt fyrir hrun og flutti í burtu af því að hún hafði betri upplýsingar en almenningur sem sat steiktur eftir. Hún sá ekki sóma sinn í því að koma með peningana heim þegar landið þurfti mest á því að halda.

Við þetta þurfa kjósendur í landinu að fá að gera upp og við þá leynd sem yfir þessu hefur verið. Það stendur upp á okkur alþingismenn að standa vörð um það sem við settum okkur eftir hrunið, að segja stríð á hendur þeim eitraða kokteil sem er leynd, peningar og pólitík og fylgja því eftir að menn virði hagsmunaskráningu en axli ella fulla pólitíska ábyrgð. Kjósendur þurfa að fá að segja það skýrt og afdráttarlaust í kosningum að á Íslandi er það mannauðurinn sem skapar verðmætin en ekki forréttindastéttirnar, að hér eiga verðleikar að ráða framgangi manna og hér á fólk að efnast í frjálsum viðskiptum á opnum markaði en ekki í bakherbergjum Stjórnarráðsins.

Virðulegur forseti. Ég hvet stjórnarþingmenn til að íhuga það vel þegar þeir taka afstöðu til þeirrar tillögu sem liggur fyrir í hvaða liði þeir ætla að vera. Ég hygg að hér séu vatnaskil hins gamla tíma og hins nýja tíma, þeirra sem vilja gera sterkar kröfur í stjórnmálum og um siðferði, um að við séum nútíma vestrænt lýðræðisríki, og hinna sem finnst nóg að gera lágmarksreddingar og segja að hlutirnir séu í lagi af því að þeir eru löglegir, þó að þeir kunni að vera siðlausir.

Um vantraust á þessa ríkisstjórn er algjör óþarfi að fjölyrða, ekki bara heimurinn, ekki bara landsmenn allir, ekki bara við í stjórnarandstöðunni heldur meira að hún sjálf treystir sér ekki. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, kynnti ríkisstjórnina með þeim hætti á tröppunum í Alþingi í vikunni að ríkisstjórnin væri í rusli. Það þarf ekki orð okkar í stjórnarandstöðunni til, það er leiðtogi Sjálfstæðisflokksins sem sjálfur lýsir því hvert ástandið er. Þegar nýr forsætisráðherra segir að það sé ábyrgðarlaust að ganga til kosninga núna, hvað er það þá að skipa ríkisstjórn sem menn eru sjálfir sannfærðir um að sé í rusli?

Eru einhverjir þeir Íslendingar til sem hefðu staðið verr að verki en þessi ríkisstjórn hefur gert á undanförnum dögum? Hefði ekki jafnvel verið betra að draga nöfn úr hatti og setja á ríkisstjórnarbekkinn en að hafa þessa frammistöðu? Er ekki algjört ábyrgðarleysi að láta jafn vanhæfa ríkisstjórn sitja áfram, sem er á Flórída meðan eldarnir brenna?

Þegar fjármálaráðherra segir að við höfum treyst stofnunum ríkisins fyrir því að fylgja eftir upplýsingum um skattamálin er það rétt, ég hef kallað í sjö og hálft ár eftir því að fá upplýsingar úr skattaskjólum en mér datt heldur aldrei í hug að það væru stjórnmálamenn sem væru þar, hvað þá æðsti yfirmaður skattamála í landinu og enn síður að eftir að fjármálaráðherrann er orðinn uppvís að því að vera á aflandseyjum teldi hann eðlilegt að hann héldi áfram að sitja sem yfirmaður skattamála í landinu. Þetta er svo fjarstæðukennt að það tekur engu tali. Það er óhjákvæmilegt að þingið hrindi af stað rannsókn og upplýsi um allt sem hægt er að upplýsa um hlut stjórnmálamanna og opinberra embættismanna í þessu hneyksli, en mikilvægast að almenningur fái að gera upp við stjórnmálin í landinu, við forréttindastéttirnar og við spillinguna á aflandseyjum með því að kjósa strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)