145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Staðan á Íslandi er grafalvarleg. Okkar litla samfélag hefur orðið fyrir gríðarlegum álitshnekki, álitshnekki sem heimsbyggðin öll fylgist með. Þjóðin er slegin. Tilfinningin er að hér sé við völd fólk sem upplifði ekki hrunið á eigin skinni heldur örlítil óþægindi sem leiddu til þess að það þurfti að skjóta nokkrum milljörðum í skjól í útlöndum, fólk sem er algerlega úr tengslum við veruleika almennings, ungs fólks í húsnæðisleit, námsmanna, sjúklinga og öryrkja. Veruleiki ríka fólksins.

Forusta ríkisstjórnarflokkanna hefur staðið fyrir lágmarksbreytingum á ríkisstjórninni án þess að nokkur nefni það sem á undan er gengið. Hæstv. nýr forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi í morgun ekki aflandsfélög eða skattaskjól á nafn. Bjarni Benediktsson gerði það ekki fyrr en í raun tilneyddur hér áðan. Afneitun ríkisstjórnarflokkanna er alger. Þessi forusta heldur að það geti verið boðlegt að lítilsvirða Ísland, þjóðina og samfélagið allt. Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar byrjar vegferð sína með vantraust þjóðarinnar í veganesti eins og birtist í nýrri skoðanakönnun Maskínu í morgun þar sem fram kemur að 65% bera lítið eða mjög lítið traust til ríkisstjórnarinnar á hennar fyrsta degi.

Ræða nýs forsætisráðherra í morgun var furðuleg og endurspeglaði veruleikafirringu þar sem hann vísaði til gamals texta samstarfsyfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem þáði sitt umboð í kosningum á fölskum forsendum, eins og ekkert hefði gerst, eins og ekkert hefði í skorist. En hvað hefur gerst? Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heldur áfram að vera formaður Framsóknarflokksins og hefur nú hafið átök við sjálfstæðismenn. Í sjónvarpi í gær segir hann að mál Bjarna sé sambærilegt við hans eigið á meðan Bjarni segir að hann sjálfur hafi þó ekki verið með kröfu á þrotabú gömlu bankanna. Þetta gerðist í gær eftir að niðurstaðan lá fyrir og enn einn góði fundurinn hafði verið haldinn.

Í Fréttatímanum í morgun kemur fram að 332 ráðherrar í ríkjum Vestur-Evrópu séu fyrir hendi yfir höfuð. Þar af eigi fjórir félög í skattaskjólum og þar eru þrír í fráfarandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. (Gripið fram í.) Þessir þrír eru báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna og annar varaformaðurinn. Skattaskjólsríkisstjórnin verður að fara frá, þó ekki væri nema bara út af þessu.

Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson sagði við fjölmiðla áðan að engin niðurstaða væri hafin yfir gagnrýni og vísaði þá til þess að einstakir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vildu kosningar strax. Það er nefnilega lóðið. Enginn niðurstaða er hafin yfir gagnrýni og þess vegna er vantrauststillagan komin fram, auk tillögu um þingrof og kosningar. Niðurstaða stjórnarflokkanna er nefnilega ekki rétt. Það er fyrirsláttur að um sé að ræða einhver tiltekin verkefni sem enginn geti leitt til lykta nema flokkar sem eru í upplausn og ríkisstjórn sem er algerlega rúin trausti. Öll þau rök eru fyrirsláttur eins og margoft hefur komið fram og ekkert verkefni er svo brýnt að ekki sé hægt að leiða það til lykta með nýju umboði þjóðarinnar.

Á ögurstundu sem þessari þarf að kalla þjóðina saman og efna til almennra kosninga. Ákallið er skýrt og nauðsynin er brýn, skattaskjólsríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir einu einasta verkefni. Það er ólýðræðislegt að hún haldi áfram, það er óboðlegt og óásættanlegt fyrir samfélag sem þarf að endurreisa tiltrú og trúverðugleika.

Skattaskjól eru ein af flóknustu viðfangsefnum samtímans og gríðarlega mikilvægt að stemma stigu við þeirri starfsemi sem þar þrífst. Innan skattaskjóla er að finna peninga sem hafa komið til meðal annars vegna vopnasölu, eiturlyfjasölu, mansals og vændis. Þar er að finna peninga sem er verið að skjóta undan skatti og freista þess að komast hjá því að greiða til samfélagsins, til innviða og velferðarkerfa. Þeir sem hafa peninga sína í skattaskjólum og fullyrða að þeir hafi greitt skatta og skyldur af því fjármagni eru með vissum hætti að hjálpa til við ólögmæta starfsemi af ýmsu tagi auk þess sem engin leið er að sannreyna að upplýsingar um skattgreiðslu séu byggðar á fullnægjandi upplýsingum. Það er óásættanlegt með öllu að forustumenn samfélags sem vill telja sig til upplýstra lýðræðisríkja taki þátt í því að réttlæta starfsemi af því tagi með því að ráðstafa sínu persónulega fé með slíkum hætti.

Stóri Panama-lekinn snýst um skattaskjól. Hann snýst um ráðstöfun af þessu tagi sem er óásættanleg með öllu. Nú berast böndin að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, en þar er upphæðin sem um ræðir 5,5 milljónir íslenskra króna. Aðkoma að skattaskjólum og aflandsfélögum snýst nefnilega um prinsipp, snýst um meginreglu en ekki um upphæðir. Það dugir ekki fyrir íslenskt samfélag að einn ráðherra stígi til hliðar. Það er óásættanlegt annað en að þeir ráðherrar sem koma fram í Panama-skjölunum stígi allir til hliðar og ríkisstjórnin fari frá.

Lög hafa hingað til ekki dugað til að koma í veg fyrir notkun umdæma af þessu tagi. Þessi notkun grefur undan samfélögum og holar að innan velferðarkerfi heimsins. Í þessu taka formenn stjórnarflokkanna þátt og skammast sín ekkert fyrir það. Það er ekki dyggð að fara að lögum. Það er lágmarkskrafa sem gerð er til allra. Það er ekki dyggð að borga skatta, það er lágmarkskrafa sem gerð er til allra. Þjóðin gerir hins vegar auknar kröfur til þeirra sem marka stefnuna, kröfur um aukið siðferði, um að þeir séu trúverðugir í það verk að bæta það sem brotið er en séu ekki beinlínis á kafi í sukkveislunni. Þessu virðast allir átta sig á nema stjórnarherrarnir sem skammast sín ekkert, sjá ekkert rangt og eru algerlega aftengdir veruleikanum. Svoleiðis menn eiga ekki að koma nálægt stjórnmálum. Svoleiðis flokkar eiga ekki að vera við stjórnvölinn. Hér þarf að koma lögum yfir þá sem hafa haft rangt við og haft fé af samborgurum sínum og samfélaginu öllu. Sterkasta krafa samfélagsins er heiðarleiki.

Virðulegi forseti. Hér eru á fleti fyrir helmingaskiptaflokkarnir, hrunflokkarnir, flokkarnir sem ráku þá pólitík í aðdraganda efnahagshrunsins að draga úr regluverki, svelta eftirlitsstofnanir og selja samfélagseigur. Ábyrgð þeirra var alger og kemur fram með skilmerkilegum hætti í rannsóknarskýrslu Alþingis. Sú staða sem nú er uppi er algerlega á ábyrgð sömu flokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þessum flokkum verður að gefa langt frí. Um það eiga næstu kosningar að snúast og þær verða að vera strax.