145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram leiði mjög skýrt fram að góður samhljómur er í þingsalnum um að mikilvægt er að berjast gegn því fyrirkomulagi sem felst í aflandsfélögum og þeim möguleikum sem þar er að finna til að skjóta mönnum undan skattgreiðslum.

Hæstv. fjármálaráðherra ræddi ágætlega til hvaða aðgerða hefði verið gripið á undanförnum árum til að stemma stigu við slíkri hegðan og eins að draga úr leynd þeirri sem þar er að finna. Ég held að við séum öll sammála um þetta og að áfram verði unnið að þessum málum í alþjóðlegri samvinnu. Ég held að þeir atburðir sem hér hafa orðið ýti mjög undir þá samstöðu.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins gera að umtalsefni þá ræðu sem hv. þm. Árni Páll Árnason hélt fyrir skömmu. Mér fannst þar kveða við nokkuð nýjan tón. Ég tel að það eigi að gefa gaum að þessari ræðu hvað það varðar að hér eru stór mál, mikilvæg í samfélaginu, sem við þurfum að ræða og ná samstöðu um og höfum gert þrátt fyrir átök.

Ég tel að einn sá málaflokkur sem við hljótum að horfa til og þurfum að ræða meira um sé sá málaflokkur sem fellur undir mitt ráðuneyti, sá sem í dagsdaglegu tali er kallaður menntamál. Ég vil fá að setja það í ákveðið samhengi sem snýr að þessari ríkisstjórn og næstu ríkisstjórnum. Lífskjör í landinu eins og í öðrum þróuðum ríkjum munu fyrst og síðast snúast um menntun. Þó að við séum núna að karpa og takast á um hvort kjósi eigi í vor eða næsta haust, hvort það hafi verið nóg að forsætisráðherrann steig til hliðar eða ekki, fara slík mál ekki frá okkur. Við munum takast á um þau í kosningum, næstu kosningum og þar næstu kosningum o.s.frv., en ég tel að við þurfum að fara að setja slíkan málaflokk í svolítið annað samhengi en gert hefur verið. Það er það sem ég vil fá að ræða hér varðandi þessa ríkisstjórn og jafnvel næstu og þar næstu.

Nýverið hafa komi fram sláandi tölur um framleiðni á Íslandi og verga landsframleiðslu á hverja vinnustund. Þær tölur sýna svart á hvítu að við Íslendingar höfum verið að færast í ranga átt hvað varðar framleiðni á hverja vinnustund, hversu mikið við þurfum að vinna fyrir verðmætunum og það sem meira er, þetta land sem býr yfir svo gríðarlegum auðlindum stendur langt að baki þjóðum sem hafa takmarkaðar auðlindir en hafa náð í krafti menntunar og hugvits að komast langt fram úr okkur hvað varðar framleiðni á hverja vinnustund.

Þegar maður horfir til lengri tíma, virðulegi forseti, og lyftir sér aðeins yfir þá umræðu sem hér fer fram og veltir fyrir sér þeim möguleikum sem við Íslendingar eigum í framtíðinni þá tel ég að það skipti gríðarlega miklu máli að við fjárfestum í komandi kynslóðum, unga fólkinu, og gefum þeim tækifæri til þess að takast á við framtíðina. Þó að hér séu átök og hart sé tekist á og þó að hér falli jafnvel þung og sver orð þá stöndum við frammi fyrir þessum verkefnum. Við stöndum frammi fyrir gríðarlega miklum áskorunum.

Virðulegi forseti. Ég hef í störfum mínum sem menntamálaráðherra lagt alla áherslu á að gera þær breytingar á menntakerfinu til að ungmenni á Íslandi fái tækifæri til að standa í sömu sporum og ungmenni þeirra þjóða sem við berum okkur saman við um lífskjör, að breyta þeirri staðreynd að við Íslendingar erum þjóða elst þegar kemur að því að útskrifast með fyrstu háskólagráðu, að breyta þeirri staðreynd að skólakerfið skili nemendum okkar miklu seinna út á lífsleiðinni með undirbúningsmenntun sína. Menn spyrja: Hvað hefur þetta með vantraustsumræðu að gera? Virðulegi forseti. Þetta hefur allt með þá umræðu að gera.

Ég heyri að hv. þingmenn gera lítinn greinarmun, eðlilega, á þeirri ríkisstjórn sem hefur tekið við og þeirri sem sat áður á þessu kjörtímabili en verk hennar hljóta að vera hér til umræðu því að varla ætla menn að skoða einungis verkin undanfarnar klukkustundir. Af því að það er vantraust á ríkisstjórnina, þá hljótum við að ræða verkin og áhersluatriðin.

Ég segi, virðulegi forseti, að þegar horft er til þess sem hefur tekist á kjörtímabilinu við að fleyta fram málum á sviði heilbrigðismála, menntamála, lífskjara í landinu, kaupmáttaraukningar, stöðu ríkisfjármála, aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu, sem er grundvöllurinn fyrir áframhaldandi hagvöxt í þessu landi, og beri menn saman þá þróun á Íslandi við það sem hefur gerst í þeim löndum sem við erum þó að bera okkur saman við þessa dagana, þ.e. ef við skoðum akkúrat það sem hefur verið að gerast í flestum ríkjum Evrópu undanfarin tvö, þrjú ár, er augljóst að ríkisstjórnin sem tók við völdum árið 2013 og hefur endurnýjað stjórnarsamstarf sitt nú frá og með gærdeginum á ríkisráðsfundi hefur skilað miklum árangri. En ég vek athygli á því að ekki er nóg að horfa á þann árangur sem hefur orðið á undanförnum árum, heldur þurfum við líka að horfa til þeirra þátta þar sem litið er til lengri tíma eins og menntamálanna. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, og hef sagt það áður: Við þurfum að auka fjárfestingu í menntun því að það er fjárfesting í framtíð þjóðarinnar. Já, virðulegi forseti, þessi fullyrðing og þessi skoðun hefur allt með vantraustsumræðu að gera.

Við höfum á undanförnum árum gert kerfisbreytingar, gert áherslubreytingar, m.a. til að tryggja að allt sé gert sem hægt er til að börnin okkar læri að lesa, það grundvallaratriði sem svo mikill brestur hefur orðið á. Ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir vantraustsumræðu hlýtur að benda á slík verk og um leið hvert stefna skuli í mikilvægum málaflokkum.

Virðulegi forseti. Ég tel að það land sem við byggjum hafi alla möguleika og sennilega meiri möguleika en flest önnur lönd veraldarinnar að búa þegnum sínum góð lífskjör, ekki bara efnisleg heldur líka þegar litið er til allra þátta mannlegs samfélags. Reyndar er það svo, og okkur er tamt að gleyma því, að þegar horft er til Íslands með augum alþjóðastofnana sem líta á lífskjör og meta það hversu vel þjóðir standa þá merkilegt nokk, virðulegi forseti, þrátt fyrir öll átökin hér, þrátt fyrir það hvernig við tölum stundum, er margt mjög gott í okkar samfélagi. Vissulega er þetta mikill skafl. Vissulega er atburðarás undanfarinna daga álitshnekkir fyrir okkur. En það má ekki gleyma því sem vel er gert. Það má ekki gleyma því sem er gott á Íslandi. Það má ekki gleyma þeim árangri sem við höfum náð. Það eiga allir stjórnmálaflokkar á Íslandi þátt í þeim árangri.

Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem sat á kjörtímabilinu hafi náð alveg einstaklega góðum árangri, en allir flokkar hafa verið þátttakendur í þessu verkefni og ekki bara fyrir hrun heldur líka eftir hrun. Virðulegi forseti. Um þetta getum við verið sammála. Við getum verið sammála um að það eru tækifæri fyrir okkur öll í þessum sal til að gera landið okkar betra.