145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[14:54]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Leiðarljós ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er bættur hagur heimilanna í landinu og efling atvinnulífs. Þessi áhersla kom fram í stefnuyfirlýsingu 22. maí 2013 og er enn í fullu gildi og er stefið í krefjandi vinnu fram undan. Núna, örfáum árum eftir hrun, erum við Íslendingar ein stöndugasta þjóð heims fjárhagslega. Það er afrek út af fyrir sig hve vel hefur gengið að endurreisa samfélagið og við eigum að vera stolt af því. Hér hefur verið spurt í dag: Veit þetta fólk ekki hvað það er að gera? Ég get svarað því með því að telja upp hvað gengið hefur eftir og verið framkvæmt á þessu kjörtímabili, eins og það t.d. að skuldir heimilanna hafa lækkað hraðar undir stjórn þessarar ríkisstjórnar en nokkurn tíma áður. Kaupmáttur allra hefur aukist, hér hefur ríkt eitt lengsta hagvaxtarskeið í sögu lýðveldisins, algjör viðsnúningur hefur orðið á stöðu ríkissjóðs og fjárlög eru lögð fram með 350 milljarða afgangi. Uppbygging heilbrigðiskerfisins er hafin. Þá hafa þau tvö mál sem sett voru á oddinn 2013, annars vegar leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar lausn á málum slitabúa föllnu bankanna til að greiða fyrir losun fjármagnshafta, verið leyst á farsælan hátt.

Skuldaleiðréttingin var svar við ákalli stórs hluta þjóðarinnar sem varð fyrir þungu áfalli og upplifði mikið óréttlæti. Lausn á málum slitabúanna mun leiða til 500 milljarða kr. betri stöðu ríkissjóðs, auk margra annarra jákvæðra þjóðhagslegra þátta. Vegna aðgerðanna hefur lánshæfi ríkisins og fyrirtækja hækkað. Það segir Lee Buchheit einstakan árangur í fjármálasögu heimsins.

Hæstv. forseti. Svona gæti ég haldið áfram því að svo sannarlega hafa menn ekki verið verklausir, en meðal stjórnarandstöðunnar virðist ekki vera eftirspurn eftir þessum staðreyndum. Við höfum ekki unnið okkur út úr áföllum liðinna ára og verðum að viðurkenna að gerð hafa verið mistök og ekki nægilegur árangur náðst í samtali við þjóðina. Það er sannarlega verk að vinna því að við verðum einhvern veginn að finna friðsæld innra með okkur svo við getum nálgast hvert annað af virðingu og sanngirni. Öllum ber okkur að skila okkar skerfi til samfélagsins og öll undanskot viljum við stoppa. Svik og undanskot samþykkir enginn. Til að stíga næstu skref tel ég mikilvægt að viðhalda pólitískum og efnahagslegum stöðugleika í landinu.

Hæstv. forseti. Máli mínu til stuðnings vil ég til dæmis benda á það sem fram kom í fréttum RÚV þann 6. apríl síðastliðinn og varðar tímarammann við afnám gjaldeyrishafta, eitt mikilvægasta verkefnið sem fyrir liggur. Þar segir Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Ég mundi halda að þetta mál væri þess eðlis að allir flokkar ættu að geta verið nokkurn veginn sammála um að markmiðin séu þverpólitísk. Það er búið að vinna mikla vinnu, bæði af hálfu Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, og ég mundi halda að þetta mál væri mjög langt komið. Það sem þarf er að fylgja því í höfn og ég mundi álykta að flestir flokkar ættu að vera sammála um afgreiðsluna þó að menn geti greint á um einstök atriði. Aðalatriðið er það að halda þessum tímaramma, að það sé hægt að leggja fram þessi lagafrumvörp sem heimila Seðlabankanum að fylgja þessari áætlun eftir.“

Kosningar gætu tafið afnám gjaldeyrishafta verulega og komið sér afar illa fyrir íslenskt viðskiptalíf.

Hæstv. forseti. Hér er eitt af stóru málunum sem ég tel að okkur beri skylda til að klára svo halda megi áfram að byggja upp öflugt samfélag. Þá vil ég líka nefna húsnæðisfrumvörpin sem nú liggja fyrir og margir bíða eftir svo leysa megi úr málum einstaklinga með lágar tekjur og finna leiðir fyrir ungt fólk sem vill koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þau mál hafa verið unnin í sátt við aðila vinnumarkaðarins og eru í þinglegri meðferð. Gangi þau eftir stefnir í miklar og jákvæðar breytingar á húsnæðismarkaði. Ég vil ekki setja þjóðina í þá stöðu að hér skapist pólitísk óvissa og að efnahagsástandi sé ógnað.

Hæstv. forseti. Hér hefur verið sagt að ríkisstjórnin sé umboðslaus. Því er gott að rifja það upp hvert þingmenn og ríkisstjórn sækja umboð sitt. Þingmenn sækja umboð sitt til þjóðarinnar í almennum kosningum og umboð ríkisstjórnarinnar byggir á meiri hluta þingmanna á Alþingi. Umboð þessarar ríkisstjórnar verður staðfest hér á eftir. Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar hefur lagt línurnar strax í upphafi með samtali við minni hlutann. Nú reynir á menn og ég treysti forsætisráðherra til að leiða mikilvæg mál fram af festu og sameina okkur í því markmiði að vinna landi og þjóð gagn. Ég hafna því þessari vantrauststillögu.