145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hélt nú um tíma að ríkisstjórnin hefði tekið þessa tillögu svo alvarlega að hún væri bara farin. Það var enginn hér á ráðherrabekkjunum áðan, en hæstv. forsætisráðherra er kominn og ég fagna því um leið og ég óska honum til hamingju með hans frama, þótt það sé kannski óhefðbundið að byrja umræður um vantrauststillögu á ríkisstjórn með hamingjuóskum. Ég ætla engu að síður að gera það [Hlátur í þingsal.] hefðarinnar vegna og ég vil sérstaklega óska nýjum utanríkisráðherra til hamingju, hæstv. utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur, sem ég þekki af góðu einu og mér finnst vera það langbesta við þessa ríkisstjórn, eiginlega það eina.

Hvers vegna vantraust nú og þingrof og nýjar kosningar? Það er einfaldlega vegna þess að við sitjum uppi með ónýta ríkisstjórn. Hún hefur í raun sjálf viðurkennt það og hæstv. fjármálaráðherra í stiganum um kvöldið þegar hann vildi að vísu orða það þannig að stjórnarandstaðan væri líka í rusli, væri líka í tætlum. Ríkisstjórnin var þá það sannarlega. Hún er trausti rúin. Hún nýtur einskis stuðnings meðal almennings. Aldrei nokkurn tímann í sögu lýðveldisins hefur ríkisstjórn farið af stað með jafn lítinn stuðning. Fjórðungur landsmanna hefur eitthvert svolítið álit á henni. Það má segja um ríkisstjórnina eins og sagt var um ónefndan mann forðum: Hún stritast við að sitja. Það fer ekki mjög vel á því.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra staðfestu með málflutningi sínum í umræðum, t.d. í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær, þá að vísu annar þeirra í öðru embætti, og í umræðum í morgun, að þetta er nákvæmlega sama ríkisstjórnin með nákvæmlega sama hugarfarinu. Hver var málflutningurinn og hver er hann hjá stjórnarliðum? Við, ríkisstjórnin hefur náð svo stórkostlegum árangri. Við höfum gert þetta og hitt. Við höfum lækkað skuldir heimilanna. Við höfum tryggt hagvöxt. Við höfum fjölgað ferðamönnum. Við höfum smalað makrílnum inn í landhelgina. Við höfum gert þetta allt og okkur er þar af leiðandi einum treystandi til að stjórna.

Þeir eru komnir að þeirri niðurstöðu að þeir séu ómissandi. Hvers vegna þá að biðja bara um þrjá mánuði í viðbót eða sex? (Gripið fram í.) Verður þessi ríkisstjórn ekki að sitja út öldina (Gripið fram í.) þannig að það verði maðurinn með ljáinn einn sem endurnýjar í henni, hún er svo ómissandi? Má ég þá frekar biðja um viðhorf Kristjáns heitins Eldjárns, fyrrverandi forseta, sem sagði þegar hann tilkynnti um að hann mundi ekki bjóða sig fram á viðsjárverðum tímum í íslenskum stjórnmálum 1980: Það er enginn ómissandi. Það er hættulegt ef menn fá þá tilfinningu og skoðun að þeir séu ómissandi og treysta engum öðrum. Þá er einmitt tímabært að hætta. Það eru alveg sérstök rök fyrir því að ríkisstjórnin eigi strax að fara frá að hún heldur að hún sé ómissandi. Það hefur alltaf reynst hættulegt í mannkynssögunni að vera undir stjórn slíkra manna. Hrokinn, valdhrokinn, sem birtist í þessu, iðrunarleysið er það sama og birtist okkur í Panama-málinu. Sömu viðhorf til eigin verka og þeir sýna í viðbrögðum við því máli. Þetta gengur ósköp einfaldlega ekki, frú forseti. Það er ekki við þetta búandi. Það á að kjósa í vor. Það á að eyða óvissunni með því og stytta upplausnartímann í íslenskum stjórnmálum vegna þess að það tekur einn mánuð að kjósa hvenær sem það er gert. Munurinn verður sá að þá höfum við strax snemmsumars og í næstu fjögur ár vonandi trausta stjórn með skýrt umboð og getum haldið áfram veginn.

Þessi hallærismillibilsstarfsstjórn gerir ekkert annað en framlengja óvissuna í íslenskum stjórnmálum í þrjá, fjóra mánuði, ekkert annað, ef hún stendur þá við loforðið um kosningar. En það kemur að vísu ekki að því að reyna á það. Hún verður farin áður. Hún verður farin áður, spái ég. Hún getur til dæmis ekki tekist á við það risavaxna verkefni að vinna úr upplýsingum Panama-skjalanna og þess sem í vændum er þaðan. Það er pólitískur ómöguleiki, sem Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skilur kannski af því að hann hefur notað það hugtak mikið, að hann sem fjármálaráðherra sjálfur á listunum stjórni því hvernig ríkisfjármála- og skattyfirvöld í landinu takast á við þann veruleika. Það er pólitískur ómöguleiki. Það gengur ekki.

Ríkisstjórnin segist þurfa að vera við völd til að afnema gjaldeyrishöft. Ha, til að afnema gjaldeyrishöft? Stendur það til í maí? Vita þeir ekki sjálfir hvað er á dagskrá? Það sem stendur til í maí er uppboð á aflandskrónum, ekki afnám gjaldeyrishafta. Það á ekki að hreyfa við þeim fyrr en niðurstöður uppboðsins liggja fyrir og menn geta í ljósi þess hvernig það gekk metið í hvaða mæli er hægt að slaka á höftunum. En það stendur ekki til að fella þau niður, afnema þau, nema ríkisstjórnin ætli að gera það í andstöðu við Seðlabankann. Seðlabankinn hefur útlistað það mjög skýrt að í kjölfar þess að búið verði að hreinsa aflandskrónurnar út úr hagkerfinu taki við á einhverjum tímapunkti nýjar reglur, hraðatakmarkanir, þjóðhagsvarúðartæki, með öðrum orðum, höft verða ekki afnumin. Þannig að hér er verið að reyna að villa um fyrir mönnum og telja þeim trú um að meira sé í vændum en til stendur og nokkurt vit er í. Ég segi alveg eins og er, frú forseti, mér líður alltaf verr og verr með örlög landsins í höndum þessara manna. Þetta gengur ekki.

Varðandi húsnæðismálin sem eiga að vera svona óskaplega heilög og mikilvæg; þar er eitt mál sem þarf að laga verulega til og þá er kannski einhver von að það verði að gagni, en þær íbúðir verða ekki byggðar fyrr en 2017, 2018. Það mun enginn maður flytja inn í íbúð sem var byggð sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það verður ekki þannig. Svo gjörsamlega hefur hún forklúðrað því.

Þannig að niðurstaðan er ósköp einföld. Það á að kjósa og kjósa strax. Það hefur mikla kosti í för með sér. Við skulum sameinast um að gera þær lágmarksráðstafanir sem þarf vegna hluta sem eru á dagskrá í apríl og maí. Ef gera þarf einfaldar breytingar á gjaldeyrislögum þannig að uppboðið geti farið fram í maí þá það, þá gerum við það, við erum vön því að kippa einhverjum ákvæðum inn í gjaldeyrislögin og þekkjum þau vel.

En má ég að lokum minna á, þegar ríkisstjórnin stærir sig nú af þessu, að þetta er uppboðið sem hún sjálf kynnti í fyrra að ætti að fara fram í október síðastliðnum. Það er ekki búið enn þá. Nú eigum við öll að bera ábyrgð á því og þurfa að sitja uppi með þessa hallærisríkisstjórn til að hún geti farið í uppboðið sitt hálfu ári seinna en hún boðaði. Svona er þetta allt saman.

Frú forseti. Það þarf ekkert að ræða þetta mikið frekar. Við í stjórnarandstöðunni erum að minnsta kosti algjörlega sammála um matið á stöðunni. Svo vill til að þjóðin er sammála okkur.