145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:15]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það eru rétt um það bil þrjár vikur síðan stjórnarandstaðan fór fram á afsögn fyrrverandi forsætisráðherra vegna hans persónulegu mála. Það var hins vegar ekki fyrr en í þessari viku, þegar öllum mátti vera ljóst að forsætisráðherrann fyrrverandi viki, sem stjórnarandstaðan fór að hafa uppi kröfu um að allt að einu yrði boðað til kosninga nú þegar. Strax — í þrengstu merkingu þess orðs. Fram að þeim tíma höfðu forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar og fleiri lýst því ágætlega að mál fyrrverandi forsætisráðherra væri alveg einstakt og ef út í það væri farið af allt öðru kalíberi en til dæmis þau mál sem reynt hefur verið að tengja tvo aðra ráðherra við.

Það er ekkert óeðlilegt, virðulegur forseti, við að stjórnarandstaða á hverjum tíma kalli eftir kosningu. Það er ekkert nýtt í því. Það er líka ágætt að hafa í huga að það er sjálfsagt og alveg eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn á hverjum tíma hlusti og taki tillit til málefnalegra sjónarmiða sem sett eru fram hér innan þings og einnig utan þings en lýðræðinu fylgja réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa til að takast á við það verkefni sem þeir hafa verið kjörnir til og þau vandamál sem kunna að koma upp á hverjum tíma.

Ég dreg ekki dul á það að engri ríkisstjórn er auðvelt að forsætisráðherra þurfi að víkja en í þessu tilfelli var það leyst bæði fljótt og að mínu mati afar vel. Hér ríkir engin stjórnarkreppa. Það ríkir ekkert slíkt upplausnarástand í þjóðfélaginu að það réttlæti kosningar strax í þeirri þrengstu merkingu þess orðs sem hægt er að hugsa sér. Það eru engar forsendur fyrir öðru en að ríkisstjórn nú undir nýju forsæti starfi áfram og uppfylli þannig skyldur sínar gagnvart þeim sem með lýðræðislegum hætti fól þeim umboð til þess arna.

Ég tel alveg einsýnt að menn í þessum sal og víðar í þjóðfélaginu fjalli almennt um hagsmunaskráningar. Ég tel alveg eðlilegt að menn ræði það nánar. Kjörnir fulltrúar þurfa bara að bíta kannski í það súra epli, ef einhverjum finnst það, að það er ekki eðlilegt að tengjast viðskiptalífinu á meðan þeir hafa umboð sem kjörnir fulltrúar. Þetta gerði hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma árið 2009, löngu áður en hann varð ráðherra. Ég er ekki að segja að það geti ekki verið hagkvæmt stundum eða eðlilegt að kjörnir fulltrúar tengist atvinnulífinu með einhverjum hætti, háskólasamfélaginu eða sinni störfum meðfram umboðsmennsku sinni fyrir kjósendur en það þarf að vera alveg ljóst í hverju slíkt felst og menn mega ekki heykjast á því að upplýsa allt í þeim efnum.

Í því sambandi er rétt að hafa í huga að hagsmunir maka eru ávallt hagsmunir hjóna. Þetta þurfum við að ræða og ég hvet þingheim allan til að skoða þær reglur sem um þingmenn gilda hér strax á næstu vikum svo það fari ekkert á milli mála að menn líti þessi mál almennt alvarlegum augum.

Virðulegur forseti. Ég mun með vísan til lýðræðisins og stjórnskipunarinnar greiða atkvæði gegn þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og hvet aðra hv. þingmenn til að gera það einnig.