145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ákveðinn rauður þráður í þessari umræðu að stjórnarliðar freista þess að halda því fram að hér eigi sér stað hefðbundin stjórnmálaumræða, þetta séu ríkisstjórnarflokkarnir að verja ríkisstjórnina og stjórnarandstaðan á móti, og svo deili menn um það hvort verkin hafi verið góð, ríkisstjórnin farsæl og þar fram eftir götunum. Þetta er ekki þannig. Ég get bara sagt að við í Bjartri framtíð höfum stutt ýmislegt sem ríkisstjórnin hefur komið með og öðru höfum við verið algjörlega á móti. Ég get vel flutt hér nokkuð þokkalega ræðu, held ég, um að það sem blasir við er að þessi ríkisstjórn hefur verið mjög verklítil. Hún hefur verið frekar löt til verka gagnvart mjög aðkallandi uppbyggingarmálum í samfélaginu og þar fram eftir götunum. Margt af þessu er ekkert að fljúga, eins og að það þurfi þessa flokka til að losa höftin. Það er algjör þverpólitísk samstaða um það mál og þannig fram eftir götunum. Það sem við erum að ræða hér í dag er siðferðismál. Við erum að ræða hvort þessi ríkisstjórn hefur siðferðisþrek, hvort hún hefur dómgreind til að taka réttar ákvarðanir í erfiðri stöðu. Hún hefur haldið þannig á málum undanfarið í mjög ótrúlegri atburðarás að það afhjúpar svo mikla spillingu í íslensku samfélagi að ekki er hægt að treysta henni lengur.

Ég hef þá trú í stjórnmálum og öðru að í erfiðum kringumstæðum sé alltaf hægt að taka rétta ákvörðun. Það geta verið nokkrar réttar ákvarðanir en í samtali við aðra og með því að skoða hug sinn vel og meta allar kringumstæður er alltaf hægt að finna eitthvað sem heitir rétt ákvörðun. Rétt ákvörðun einkennist af því að hún gerir ástandið betra. Þegar maður er að reyna að taka rétta ákvörðun verður maður að varast að láta þvermóðsku eða dramb stjórna eða vera afvegaleiddur af öllu því sem er að gerast í kringum mann í kannski mjög erfiðum kringumstæðum. Breyskleikinn er oft erfiður í þessu. Stundum tekst manni þetta og stundum ekki.

Ég er að velta fyrir mér hvað hefði einkennt góða ákvörðun ríkisstjórnarinnar í þessum kringumstæðum. Hvað hefði hún getað sagt sem hefði verið gott og til vitnis um að hún horfðist í augu við þetta og væri virkilega að láta stjórnast af þeirri viðleitni sinni að gera þetta allt saman aðeins betra, horfa fram á við eins og það kallast í stjórnmálum?

Í gær hélt ég að við stjórnvölinn væru komnir hugsanlega aðeins meira normal menn sem gætu svolítið tekið stjórn á þessum kringumstæðum. Ég bjóst alveg eins við því að þeir mundu gera það á einhverjum tímapunkti. Hvað hefði ég viljað sjá? Það hefði til dæmis verið alveg rosalega flott og fallegt að sjá leiðtoga þessarar ríkisstjórnar fordæma það algjörlega að fólk í stjórnmálum geymdi pening í aflandsfélögum. Það væri líka fordæmanlegt og fordæmt algjörlega að þeir sömu aðilar töluðu við almenning um að krónan væri besti gjaldmiðillinn; þeir yrðu að hafa munninn sinn þar sem peningurinn er og öfugt. Það þyrfti líka að koma alveg skýrt fram og yrði tekið mjög alvarlega í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni að það gengi ekki undir neinum kringumstæðum að maður sem var viðriðinn það, fráfarandi forsætisráðherra, að semja við kröfuhafa hefði verið kröfuhafi sjálfur. Það hefði þurft að segja alveg skýrt að þetta gengi ekki. Nú erum við komin á þriðja, fjórða, fimmta dag í þessari atburðarás og engin svona yfirlýsing hefur komið, ekki nein.

Við stöndum núna með það frammi fyrir augunum að þessi nýja ríkisstjórn sem hefur ekki einu sinni verið samþykkt af flokksmönnum sem standa að þessum stjórnarflokkum ætlar að skilja það eftir sem opna spurningu hvort allt þetta sem fráfarandi forsætisráðherra hefur gert sé í lagi.

Síðan hefðu leiðtogar þessarar nýju ríkisstjórnar þurft að koma fram og segja: Við teljum þetta svo alvarlegt að það þurfi að kjósa, það verður ekkert annað gert í kringumstæðunum en að kjósa. Það hefði þurft að nefna hvenær á að kjósa. Þetta hefur ríkisstjórnin heldur ekki gert. Hér er innilegur dómgreindarbrestur á ferðinni. Þess vegna nýtur þessi ríkisstjórn á upphafsmetrum sínum ekki trausts. Hún tók ekki og er ekki að taka réttar ákvarðanir. Hún er ekki að segja réttu hlutina. Hún fer á undan með afleitu fordæmi.

Einu sinni sögðu sjálfstæðismenn í sínum slagorðum: Gjör rétt, þol ei órétt. Einu sinni voru þeir sammála mér um að það væri lykilatriði í pólitík að reyna alltaf að finna bestu ákvörðunina í hverjum kringumstæðum. Ég heyri á göngunum að þeir eru margir í báðum flokkum, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, sammála mínu mati um hvað hefði verið best að gera í kringumstæðunum og hver hefði verið besta leiðin fram á við. Það eru ótrúleg vonbrigði að sjá að þeir fylgja ekki hjarta sínu. Þeir trúa ekki lengur því að það sé lykilatriði í pólitík að gjöra rétt og þola ei órétt.