145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:47]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Traust er grundvöllur alls í stjórnmálum, grundvöllur þess að friður geti haldist og jafnvægi innan samfélaga, grundvöllur þess að þjóðarlíkaminn virki eins og til er ætlast, grundvöllur fyrir samfélagssátt. Sé henni raskað má líkja því við sýkingu sem hamlar eðlilegri virkni, veldur vanlíðan, þreytu, óþoli og verkjum. Þannig er ástandið í íslensku samfélagi núna. Þjóðin finnur til. Hana verkjar undan ástandinu. Hún þarf og vill fá að vinna bug á meinsemdinni svo hún geti haldið áfram á braut daglegra verkefna.

Hvert er meinið? Meinið er annars vegar spilling, ekki síst á vettvangi ríkisstjórnarinnar þar sem menn lifa í öðrum heimi en þjóðin, þar sem sérgæska, auðmannadekur og einkavinavæðing eru leidd til öndvegis í staðinn fyrir samstöðu með íbúum landsins og velferð þeirra. En það er fleira en spilling sem grefur undan trausti og sátt í íslensku samfélagi. Misskipting gæða, ójafnar byrðar, óréttlæti og skeytingarleysi gagnvart lífi og örlögum fólks, gagnvart örlögum vinnandi fólks, sjúklinga, aldraðra, ungs fjölskyldufólks, fátækra barna. Það skeytingarleysi, sem hefur verið vaxandi frá því að þessi ríkisstjórn tók við, er líka fleinn í holdi þjóðarinnar, fleinninn sem grefur undan samfélagssáttinni.

Við Íslendingar höfum alist upp við það frá blautu barnsbeini að við séum ein þjóð, öll á sama báti og þegar gefur á bátinn leggjumst við öll á árar. En sú mynd hefur breyst. Ráðamenn landsins eru ekki á báti með okkur hinum. Þeir hafa komið sér fyrir á skemmtisnekkjunni í námunda við Tortólu á meðan almenningur velkist um í árabátum upp við íslenska landsteina. Ráðherrarnir sem hafa talað fyrir því að landsmenn skuli áfram engjast í gjaldeyrishöftum og vaxtaviðjum íslensku krónunnar hafa haldið eigum sínum í erlendum skattaskjólum, þeir eru í skjóli en hinir í höftum. Upp á þetta þarf íslenskur almenningur að horfa á sama tíma og 90 siðmenntuð lönd undir forustu OECD reyna nú að uppræta með samstilltu átaki aflandsfélög og skattaskjól vegna þess að skattaskjólin grafa undan tekjulindum ríkja, velmegun samfélaga, þau skekkja leikreglurnar og koma þar með niður á lífsskilyrðum almennings. Þetta sjá önnur ríki. En ríkisstjórn Íslands sér það ekki.

Höggdofa hefur þjóðin fylgst með afhjúpunum á tvískinnungi og siðferðisbrestum íslenskra ráðamanna, ósannindum þeirra, hártogunum og hálfsannleika. Fyrrverandi forsætisráðherra sat við samningaborðið þar sem samið var við kröfuhafana og var á sama tíma sjálfur dulinn kröfuhafi ásamt konu sinni. Nú þegar hann hefur hrökklast frá er hann leystur af hólmi af samflokksmanni sem opinberlega hefur lagt blessun sína yfir gjörðir forvera síns og sér ekkert athugavert við þær, segir þvert á móti að „einhvers staðar þurfi peningar að vera“ og það sé „flókið að eiga peninga á Íslandi“.

Það er með öðrum orðum verið að skipta hér um merkimiða á ríkisstjórninni en innihaldið er óbreytt. Og svo mikið er óðagotið að flokksstofnanir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ekki einu sinni fengið ráðrúm til að fjalla um þessi ráðherraskipti, hvað þá að samþykkja þau. Tveir ráðherrar sem átt hafa eigur í skattaskjólum sitja enn í ríkisstjórninni. Fjármálaráðherrann hefur gefið skýringar sem ekki standast fyrirliggjandi gögn, hefur með eigin hendi undirritað samninga og löggjörninga sem sýna að skýringar hans standast ekki. (Gripið fram í.) Nei, virðulegi forseti. Brýnustu verkefni stjórnmálanna í dag væru öll betur komin í höndum annarra en þessarar ríkisstjórnar, sérstaklega það brýna verkefni að endurvekja traust og sátt í samfélagi okkar. Aumlegar tilraunir til þess að setja nýjan merkimiða á ríkisstjórnina, nýjan merkimiða á gallaða vöru, breyta engu. Svo alvarlegur er trúnaðarbresturinn sem orðinn er gagnvart þjóðinni og þinginu að því verður ekki líkt við neitt sem við þekkjum í íslenskum stjórnmálum. Sannkallað siðrof.

Á meðan þetta fólk er við stjórnvölinn mun aldrei gróa um heilt í íslensku samfélagi. Íslensk þjóð á kröfu á því að fá nýtt upphaf. Hún á kröfu á því að fá sjálf að afhenda umboð sitt þeim stjórnmálaflokkum sem hún treystir. Þess vegna ber okkur skylda til þess að verða við kalli þjóðarinnar og ganga strax til kosninga.