145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka núverandi hæstv. forsætisráðherra fyrir að sitja alla þessa umræðu. Það fer vel á því. En ég vantreysti þessari ríkisstjórn. Aðeins einn úr henni hefur sagt af sér eftir umrót og uppljóstranir síðustu daga. Hún þarf að víkja öll. Við eigum, íslenska þjóðin, að fá að kjósa aftur. Fráfarandi forsætisráðherra hefur sagt ósatt. Hann hefur ekki beðist afsökunar á öðru en því að hafa komið illa út úr viðtali. Hann segist ekki hafa gert neitt rangt, það sé bara afstætt hugtak hvað sé skattaskjól og hvað ekki. Fleyg voru orð hans um að Svíþjóð væri skattaskjól. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gengist við því að hafa tengst aflandsfélagi. Það hefur hæstv. innanríkisráðherra líka gert í gegnum eiginmann sinn. Þau hafa heldur ekki séð ástæðu til að biðjast afsökunar á því. Skattaskjól eru til komin til að leyna og komast hjá eðlilegum sköttum, eðlilegum sköttum sem allir hinir í þjóðfélaginu þurfa að borga. Aðrir núverandi ráðherrar hafa lýst trausti hver á annan og auðvitað sig sjálfa til þess að halda áfram.

Virðulegi forseti. Það er margt vont sem kemur fram í þessu máli öllu. En eitt er það sem er gott og mjög upplýsandi þó að það sé erfitt, það er að núverandi og fráfarandi ráðherrar hafa upplýst almenning um sín siðferðisviðmið, um meðvirkni sína hver með öðrum, um ást sína á valdi, um valdasamtryggingu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og þau hafa klykkt út með því að það sé tæknilega löglegt að eiga peninga í skattaskjólum en setja svo eiginlega punktinn eftir það. Þetta sama fólk, ráðherrar þessarar ríkisstjórnar, leggur samt öllum öðrum borgurum það til að það borgi hér á landi skatta sína og gjöld. Ég vantreysti því fólki sem á svona súrrealískan hátt ver þennan aðstöðumun í einu orðinu en segir svo í hinu: Við förum ekki frá því að íslenska þjóðin þarf svo mikið á okkur að halda.

Lekinn á Panama-skjölunum hefur sýnt það svo skýrt og svo kristaltært að mismunandi leikreglur eru eftir því hver þú ert í okkar samfélagi. Þeir sem eiga ekki peninga í aflandsfélögum þurfa svo sannarlega ekki á þessari ríkisstjórn að halda. Það væri fáránlegt að hæstv. fjármálaráðherra færi áfram fremstur í flokki í að afnema höft og allir hinir ráðherrarnir haldi bara áfram í einhverju klappliði á eftir honum því að það er þetta fólk sem hefur varið þennan aðstöðumun. Það hefur varið það að fráfarandi forsætisráðherra gat í leyni valið aðra mynt en þá sem við hin sitjum uppi með. Það er mikilvægt upp á orðspor Íslands og upp á það að afnám hafta geti haldið áfram á trúverðugri braut að ríkisstjórnin víki strax.

Virðulegi forseti. Eigum við að hunsa það að hér hafi ráðamenn sagt ósatt? Eigum við að hunsa það að ráðamenn hafi orðið uppvísir að tvöföldu siðferði? Eitt skattþrep handa sér á aflandseyjum en annað handa venjulegu fólki sem býðst bara skattþrepið sem þetta sama fólk hefur ákveðið fyrir það. Eigum við að hunsa þetta vegna þess að verkefnin sem bíða eru svo stór að við höfum ekki efni á því að vera með sómakennd, að við höfum ekki efni á siðferði? Hefur þjóðin ekki efni á að krefjast heiðarleika í störfum þessa fólks? Jú, svo sannarlega. Það er það eina sem við höfum efni á. Það er það eina sem við eigum eftir.

Svo er þessi ömurlegi hræðsluáróður stjórnarliða að við höfum ekki efni á þessu, að nú verðum við bara einhvern veginn að hnipra okkur saman í horni og bíða þess sem verða vill. Hvar annars staðar í þjóðfélaginu mundi einhver gúddera það ef sagt væri: Já, heyrðu, er ég að misbjóða þér? Ég heyri hvað þú segir, en ég ætla ekki að hætta því alveg strax því að ég þarf fyrst að klára svolítið. Ég ætla að halda áfram að misbjóða þér í smátíma af því að ég þarf að klára hérna svolítið fyrst. (Gripið fram í: Það er best fyrir þig.) Það er langbest fyrir þig að þú leyfir mér að halda aðeins áfram að misbjóða þér. Þetta er náttúrlega svo mikið rugl að það nær engri átt. Þetta er ekki fólki bjóðandi. Þetta á Alþingi Íslendinga ekki að bjóða þjóð sinni upp á.