145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég nota tækifærið og óska hæstv. nýjum forsætisráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni árnaðaróska og hamingjuóska svo og óska hæstv. utanríkisráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur til hamingju með embætti hennar og árnaðaróskir vil ég endurtaka vegna þess að ég held að það veiti ekki af.

Síðan held ég að ég geti ekki sagt mikið meira jákvætt um þá ríkisstjórn sem var mynduð í gær á rústum þeirrar fyrri sem hrökklaðist frá. Já, það er sagt að vika sé langur tími í pólitík. Þessi vika hefur verið sérstök í íslenskum stjórnmálum. Hennar verður oft getið og fjallað um hana. Ríkisstjórnin tók við góðu búi og hún hefur verið stálheppin. Efnahagsmál hafa meðal annars verið í góðu jafnvægi út af 75% lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu, metfjölda ferðamanna og innstreymis gjaldeyris, hingaðkomu makríls og margs fleira. Síðan er ekki hægt að telja mikið meira upp.

Í þessari viku þar sem meðal annars þingfundir féllu niður vil ég fullyrða að á þriðjudag var mikill meiri hluti í sal Alþingis fyrir þingrofi og nýjum kosningum. Ég get ekki séð annað en að allir nema þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ef til vill ekki einu sinni allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu greitt atkvæði með slíkri tillögu. Ríkisstjórnin er löskuð, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hæstv. forsætisráðherra fyrrverandi neyddist til að segja af sér og þar með ráðuneyti hans. Þessi ríkisstjórn er í dauðateygjum en reynir nú á lævísan hátt að halda völdum til að missa ekki völdin og skreytir sig svo með verkefnum sem er enginn vandi að semja um hér á Alþingi að klára, eins og afnámi gjaldeyrishafta eða uppboði á aflandskrónum sem er fram undan. En má ég þá minna á að inn streymir sennilega meira magn af aflandskrónum.

Þessari ríkisstjórn treysti ég því miður ekki til verka. Ég treysti henni ekki til að fylgja eftir stjórnarskrárbreytingum vegna þess að þegar er búið að klúðra því máli. Það klúður er sérstaklega á ábyrgð Framsóknarflokksins með dyggum stuðningi sjálfstæðismanna sem aldrei hafa viljað gera neitt í þeim málum. Ég spái því að ríkisstjórnin sitji ekki lengi og að óljós áform og loforð um kosningar í haust verði jafnvel svikin. En ég hygg hins vegar, eins og þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði, að það eigi svo margt eftir að koma fram að ríkisstjórnin eigi eftir að lenda í vandræðum. Hún á líka eftir að lenda í enn þá meiri vandræðum við fólkið í landinu og mun hrökklast frá.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að við þingmenn, og það á alveg sérstaklega við um þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, hefðum átt að leggja málið í dóm kjósenda og við hefðum átt að kjósa sem fyrst. Þetta sjónarmið er stutt af ansi mörgum þingmönnum stjórnarflokkanna, ég nefni hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég tek fram að ég ber mikla virðingu fyrir hreinskilni þessara þingmanna og þegar menn segja það sem þeir hugsa en láta ekki stjórnarsamstarfið og stjórnarhendurnar binda sig um það sem þeir mega segja. Þessir þingmenn hafa sagt að það hefði átt að kjósa strax. Hv. þm. Framsóknarflokksins Höskuldur Þórhallsson hefur gengið lengra og segir að formaður hans sem mun halda ræða næst á eftir mér, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, eigi að segja af sér formennsku Framsóknarflokksins og segja sig frá þingstörfum. Í fjölmiðlum streyma inn ályktanir úr Norðausturkjördæmi þar sem hv. 1. þm. Norðaust., Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er kjörinn, frá bæjarfulltrúum og forustumönnum Framsóknarflokksins á Akureyri, í Norðurþingi, á Fljótsdalshéraði og fleiri, sem hafa sent áskoranir um að hv. þingmaður eigi að segja af sér og þá um leið að ríkisstjórnin eigi að fara frá og það eigi að efna til kosninga. Oddviti framsóknarmanna í Norðurþingi gengur lengra og segir að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra eigi að fara líka.

Toppurinn af þessu birtist okkur svo í gær í fjölmiðlum. Um tíma voru tvær fréttir hlið við hlið á einum vefmiðli, annars vegar viðtal við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hins vegar við hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson. Hvað sagði þar? Með leyfi forseta:

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að miðað við umræðuna í þjóðfélaginu um tengsl stjórnmálamanna við aflandsfélög í skattaskjólum sé ekki munur á Wintris-máli sínu og Falson & Co. máli Bjarna. „Ef menn eru fyrst og fremst að líta á þetta sem prinsippmál, að þeir sem hafi verið á einhvern hátt viðriðnir svona félög, átt ættingja sem hefur það, að þeir eigi þá að gefa pólitíkinni frið á meðan málið er að lægja, nei, þá er ekki munur,“ sagði Sigmundur Davíð í Íslandi í dag.““

Og hvað sagði hæstv. fjármálaráðherra um þetta? Með leyfi forseta:

„Ég held að það sé óhætt að segja að það sé mikill grundvallarmunur á því að vera sem ráðherra ekki með neitt slíkt félag nálægt sér og það er ekki uppi nein spurning um hagsmunaárekstra af nokkrum toga. Ég held að það sé hægt að segja, og nú er ég bara að lýsa minni skoðun, þegar ég horfi yfir sviðið og horfi á fréttir, reyni að rýna í það hvað menn eru að reyna að draga út úr þessu …“ — og svo kemur rúsínan í pylsuendanum frá hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta: (Forseti hringir.) „… þá staldra menn við (Forseti hringir.) það að þarna voru kröfur á slitabúin(Forseti hringir.) á sama tíma og ríkisstjórnin var að vinna að lausn þeirra mála. Þetta er auðvitað mikill grundvallarmunur,“ svaraði Bjarni.

(Forseti hringir.)Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur næstur á eftir mér í ræðustól (Forseti hringir.) þá vona ég að hann útskýri betur fyrir okkur það sem hér er verið að vitna í og þann ágreining sem er milli þessara ráðherra og kemur þarna fram, að það sé mikill munur (Gripið fram í: Tíminn er búinn.) á starfsemi þeirra í aflandsfélögum. Hvað sagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? (Gripið fram í: Tíminn er búinn.) Það er forseti sem stjórnar því en ekki hv. þingmaður.(Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ró í þingsalinn. Forseti biður um ró í þingsalinn.)