145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, segir að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar geti varla verið til komin vegna árangurs ríkisstjórnarinnar. Jú, nákvæmlega þess vegna, vegna árangurs ríkisstjórnar fyrir hönd stórefnafólks á Íslandi, fyrir hönd stórútgerðarinnar. Frá fyrsta degi sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við stjórnartaumum vordagana 2013 sló hún skjaldborg um þá aðila með því að nema brott auðlindaskattinn og létta á auðlindagjaldinu sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði sett á arðsömustu stórútgerðarfyrirtæki landsins. Þá þessa daga fann hún sinn takt og sitt göngulag. Nú er svo komið þremur árum síðar að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill sjá á eftir henni ganga inn í sólarlagið. Hún á að fara frá og það á að boða til kosninga þegar í stað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ríkisstjórnin hefur sýnt og einstakir ráðherrar hennar að þeir eru ekki traustsins verðir. En mig langar til að staðnæmast við ákveðna praktíska þætti þegar því er haldið fram að ekki sé ráð að efna til kosninga nú heldur eigi að skjóta þeim fram á haustið. Ég er þeirrar skoðunar að þingkosningar á Íslandi eigi að fara fram á vorin, ekki haustin. Sumarið notum við til fjárlagagerðar og síðsumars liggja helstu útlínur fyrir. Þá á þjóðin rétt á því að fá slíkar tillögur stjórnvalda til umsagnar; heilbrigðisstofnanir, skólarnir og þeir aðilar sem málið snertir. Það á ekki að gera á neinum handahlaupum. Þess vegna eru kosningar í haust mikið óráð. Það er miklu, miklu skynsamlegra að efna til kosninga nú.

Síðan segir hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar okkur í fyrstu stefnuræðu sinni að forgangsmál númer eitt sé afnám hafta. Til hvers þarf að afnema höft? Til hvers? Til að geta flutt peninga til og frá, inn og út úr Íslandi? Er það forgangsmál Framsóknarflokksins? Er þetta gamla forgangsmál Viðskiptaráðsins allar götur frá því hrunið varð 2008 að hér mætti ekki vera höft á fjámagnsflutningum forgangsmál? Að sjálfsögðu ekki. Hér er komin önnur ástæða gegn því að verða við þeim rökum ríkisstjórnarinnar núverandi um að hún þurfi nokkra mánuði enn á valdastólum. Við afnemum ekki höftin sem eru tilkomin af illri nauðsyn og eru vopn Íslands nema skilyrðin séu rétt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Síðan vil ég segja þetta, hæstv. forseti: Forgangsmál á Íslandi er ekki afnám gjaldeyrishafta. Þau eru hvorki góð né slæm sem slík heldur eru þau vopn okkar. Þau eru vopn okkar. Forgangsmál á Íslandi í dag er heilbrigðisþjónustan, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir í dag, einstakir ráðherrar, að það sé vissulega forgangsmál. Hvað er það sem er á vinnsluborði hennar? Það er að bjóða út rekstur heilsugæslunnar í Reykjavík. Það eru áform um það, frekari áform um markaðsvæðingu þar.

Ég tek undir með félagsmálaráðherra að forgangsmál líka eru húsnæðismálin, en ég frábið mér þær tillögur sem er að finna í reglugerðum og í málflutningi núverandi ráðherra og ríkisstjórnar um að setja fátækt fólk á Íslandi inn í þriðja flokks húsnæði, inn í ódýrt þriðja flokks húsnæði með takmarkað sólarljós og aðgengi fyrir fatlaða. Ég frábið mér þetta. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af því að verkalýðshreyfingin skuli ekki betur standa þá vakt. Þau frumvörp sem liggja fyrir Alþingi þurfa mikillar skoðunar við áður en við klárum þau mál. Við eigum ekki að úthýsa pólitíkinni úr þessum sal. Þeir flokkar sem á annað borð hafa stefnu eru tilbúnir með hana í kosningar núna. Þeir sem hafa litla stefnu eða enga verða að sætta sig við slíkt.

Þess vegna segi ég, hæstv. forseti: Það eru öll skynsemisrök, ekki bara sú krafa sem ómar og endurómar í þjóðfélaginu öllu um kosningar strax, sem segja okkur að við eigum ekki að skjóta kosningum til þings fram á haustið. Það er ekki ráðlegur kostur. Við eigum að kjósa núna í vor. Við eigum ekki að kjósa í haust.