145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið að ekki væri að undra að stjórnarandstaðan vildi koma ríkisstjórninni frá. Það væri hlutverk hennar. Mér finnst menn tala í þessum sal, m.a. hv. þingmaður sem var á undan mér, eins og vantrauststillagan hafi bara dottið af himnum ofan. Eins og við hefðum bara ekkert betra að gera og eins og ekkert hafi gerst hér á undanförnum vikum og dögum.

Ég vil taka fram að við í Bjartri framtíð erum ekki gagngert í stjórnmálum til að fella sitjandi ríkisstjórn. Við höfum alltaf verið tilbúin til að leggja góðum málum lið en oft hefur manni blöskrað hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér, en það hefur ekki gefið tilefni til vantrausts. Það er því ekki þannig að þessi vantrauststillaga hafi orðið til í einhverju bríaríi stjórnarandstöðunnar. Hún er lögð fram vegna þess að ný ríkisstjórn, sem er reist á rústum fyrri ríkisstjórnar, nýtur ekki trausts. Hún talar ekki afdráttarlaust. Við vitum ekki hvort hún er almennt á móti því til dæmis að ráðherrar eigi aflandsfélög. Hvort það sé eðlilegt að sumir þjóðfélagsþegnar geti geymt eignir sínar í skattaskjóli. Við vitum ekki hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í því, ef þá eitthvað.

Við heyrum ekki ráðamenn biðja okkur afsökunar á að hafa raðklúðrað málum þannig að það hlýtur að jaðra við heimsmet. Ég hef ekki heyrt hvernig ríkisstjórnin, þessi nýja, ætlar að endurreisa orðspor Íslands eða hvort það sé yfir höfuð á verkefnalistanum. Eina sem ég heyri er að svo mikilvæg verkefni séu í gangi að enginn geti klárað þau nema sitjandi ríkisstjórn.

Þá spyr ég: Verður ekki að treysta kjósendum til að meta það hverjum er treystandi? Eða er kjósendum kannski heldur ekki treystandi? Er engum treystandi nema því fólki sem situr hérna á bekknum fyrir aftan mig? Auðvitað ekki. Það þarf að boða til kosninga, virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn er vanhæf.