145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að sönnu ekki lengur forsætisráðherra, en hann er óumdeilanlega hugmyndafræðingur ríkisstjórnarinnar engu að síður.

Í ræðu hans rétt áðan kom fram í sinni tærustu mynd hrokinn, firringin og hin fullkomlega svart/hvíta uppstilling sem hann byggir á og stjórnin fylgir honum að málum.

Þau segja: Við höfum gert allt rétt. Þau segja: Við höfum unnið ótrúleg afrek. Þau segja: Allir aðrir hafi gert allt vitlaust. Allir aðrir eru úti að aka.

Þetta er lína hv. þm. og fyrrverandi forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og stjórnarliðið fylgir.

Þetta er vantraust á sömu ríkisstjórnina með sömu stefnuna, með sama málflutninginn, sama hrokann, eins og við höfum fengið að kynnast í gær og í dag.

Ríkisstjórn sem telur sjálfa sig vera óskeikula og ómissandi á sama tíma og eiginlega allir aðrir telja að hún eigi að fara á að fara. Hún er hættuleg því að hún er (Forseti hringir.) blind á umhverfi sitt og skynjar það ekki.

Þess vegna á að samþykkja vantraust á þessa ríkisstjórn og kjósa strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)