145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er lýsandi fyrir ríkisstjórnina að flokkarnir hafa ekki spurt stofnanir sínar, miðstjórn og flokksstjórn, hvort efna eigi til þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Sjálfstæðismenn hafa ekki rætt það í sínum röðum, framsóknarmenn ekki heldur. Þeir hafa ekki kvittað upp á þetta. Ég er alveg viss um að margir sjálfstæðismenn mundu kannski hafa gamalt slagorð Sjálfstæðisflokksins í huga þegar þeir ræddu upplegg þessarar ríkisstjórnar undir hvaða kringumstæðum hún er stofnuð, sem er: Gjör rétt, þol ei órétt.

Augljóst er hvað er rétt og rangt í þessu. Þú geymir ekki fé þitt í skattaskjóli erlendis. Þú situr ekki beggja vegna borðs í umræðum við kröfuhafa. Það er svo augljóst. Og ríkisstjórnarflokkarnir ætla ekki einu sinni að leyfa sínum eigin flokksmönnum að segja álit sitt á þessu. Þeir eru bara búnir að stofna ríkisstjórn og neita að svara öllum spurningum. Þó svo að hún standist vantraust, þá er hún rúin trausti. Hvað gerist þegar flokkar rúnir trausti standa að ríkisstjórn? Við höfum séð það í dag. (Forseti hringir.) Þeir eru byrjaðir að lofa upp í ermina á sér og tala með óráði (Forseti hringir.) vegna þess að örvæntingin er algjör. Hún á að fara frá. Ég segi já.