145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Heiðarleiki hefur oft verið valið eitt helsta þjóðargildi okkar Íslendinga. Heiðarleiki dregur til sín mörg önnur gildi eins og traust og réttlæti. Umræða um heiðarleika, eins og við höfum orðið vitni að í þingsalnum í dag, er með ansi þunnt innihald þegar umræðan er svo gildishlaðin óheiðarleika sem raun ber vitni. Hér koma kröfur um afsakanir á leikhúsi fáránleikans. Hverjir ættu að biðjast afsökunar á þessu leikhúsi fáránleikans sem hér er viðhaft þegar verið er að hlaða umræðuna slíkum óheiðarleika eins og raun ber vitni, þar sem mönnum er gert upp traust gagnvart skattaskjólum, þeir vilji halda skattaskjólum, þeir vilji treysta og byggja undir skattundanskot og menn séu spilltir? Er þetta heiðarleg umræða? (SII: Já.) Hvað gerist þegar flokkar eru rúnir trausti? Það er eitt. En hvað gerist, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) þegar Alþingi er rúið trausti? Skyldi ekki (Forseti hringir.) vera tímabært fyrir okkur öll að líta í eigin barm (Forseti hringir.) þegar kemur að því hvers vegna Alþingi er rúið trausti? Ég segi nei.