145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það lýsir sér vel í atkvæðagreiðslunni hvernig viðhorf stjórnarmeirihlutans almennt er gagnvart pólitíkinni og því alvarlega máli sem hér kom upp. Menn þora ekki einu sinni að tala um hlutina eins og þeir eru. Þingmenn stjórnarmeirihlutans tala ekki um að menn í stjórnarliðinu séu með fé í skattaskjóli og það sé eitthvað athugavert við það heldur tala menn þannig að eitthvað hafi gerst sem sé ekki nógu gott upp á ásýnd ríkisstjórnarinnar. Við erum búin að fórna forsætisráðherranum, nú ættuð þið bara að vera þakklát en ekki vera með neina frekju, eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði. Málið er bara alvarlegra en það. Ég hlustaði á hv. þingmann Vigdísi Hauksdóttur í Ríkisútvarpinu í vikunni þegar hún var spurð: Er ekki eðlilegt að menn biðjist afsökunar? Hv. þingmaður svaraði: Afsökunar á hverju? (Gripið fram í.) Þetta er því miður viðhorfið hjá stjórnarmeirihlutanum. Hann skilur (Forseti hringir.) ekki alvarleika málsins en hann verður að gera það því að (Forseti hringir.) það er ekki traust milli þings og þjóðar. Þessi ríkisstjórn á að fara frá. Ég segi já.