145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið vísað í orð mín í dag varðandi þau ummæli að ég hefði stutt þá tillögu formanns Framsóknarflokksins að ganga til kosninga. Öll sagan hefur aldrei verið sögð, það sem ég sagði í framhaldinu. Ég sagði jafnframt í þessu viðtali að náðst hefði samkomulag og niðurstaða í þingflokki framsóknarmanna um að standa að því að þessi ríkisstjórn héldi velli og kosið yrði í haust. Lýðræðið ræður í þinginu, virðulegi forseti, líka í þingflokksherbergi framsóknarmanna. Það er fulltrúalýðræði í þinginu og í Framsóknarflokknum. Ég sagði í kjölfarið að ég mundi ekki standa að tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof, enda er hún að mínu mati, svona í framhjáhlaupi, ekki tæk stjórnskipulega séð. Það er með mikilli ánægju og á þeim grunni sem ég segi nei.