145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[14:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins brattur í málsvörn sinni að fara að draga inn í hana málaferli sem ríkið hefði tapað á síðasta kjörtímabili. Það vill svo til að á undanförnum nokkrum dögum hefur þessi ríkisstjórn og tveir ráðherrar í henni tapað dómsmálum, að vísu í héraði enn sem komið er. Annars vegar fyrir að hafa atvinnuleysisbætur af atvinnulausum með óréttmætum hætti og hins vegar að standa ekki við gerða samninga við Reykjavíkurborg.

En svo vil ég segja um efni málsins að úr því að það er svo hjá ónefndum framsóknarmönnum að orðið strax er teygjanlegt hugtak þá er haustið mjög teygjanlegt, er það ekki? Úr því að strax er teygjanlegt í Framsóknarflokknum þá er haustið ansi opið hugtak. Er það eitthvað skrýtið að menn vilji hafa fast land undir fótum í þessum efnum? Ef það er svo að ríkisstjórnin getur ekki komið sér niður á neitt, þá er þingið í þeirri stöðu að þurfa að ákveða hvernig það tekur næstu skref. Ég sé ekki annað en að það sé þá verkefnið að skipuleggja hvernig við nýtum vormissirið fram undir lok maí (Forseti hringir.) því að ekki fundum við í júní vegna forsetakosninga og svo verðum við bara að sjá til hvort þessi ríkisstjórn kemur sér niður á það til hvers hún er, hvað hún ætlar að gera.