145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

aðgerðir gegn lágskattaríkjum.

[14:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hafi menn ekki verið vissir um það áður hversu erfið og viðkvæm staða ríkir í samfélaginu þá held ég að orðaskiptin núna og mótmælin undanfarna daga eigi að færa okkur heim sanninn um það.

Það er sannarlega viðkvæm staða sem ný ríkisstjórn er í og ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að nota tækifærið, sem hann fær í andsvari við mig hér á eftir, og staðfesta það úr þessum ræðustól sem hann sagði við okkur í morgun í stjórnarandstöðunni að það yrði kosið í haust, en hann teldi sig ekki geta nefnt ákveðna dagsetningu í dag.

Ég vil hvetja hann til þess að koma með þá dagsetningu sem allra fyrst. Ég held að það skipti öllu máli til þess að reyna að vísa nú veginn áfram, burt úr þessu endalausa þrasi.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að hann teldi ekki mögulegt að grípa til aðgerða gagnvart Íslendingum sem héldu peninga í lágskattaríkjum vegna EES-samningsins. Nú ber hins vegar svo við að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að EES-samningurinn útiloki ekki að sett verði lög sem banna vistun eigna á lágskattasvæðum utan EES-svæðisins og staðfestir það, sem við vissum reyndar flest, held ég, áður, að ákvæði EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga gilda ekki um önnur ríki en EES-ríkin sjálf.

Í ljósi þess að nú er búið að leiðrétta sérfræðingana, sem hæstv. forsætisráðherra leitaði sér ráðgjafar hjá: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að gefa yfirlýsingu um að hann vilji ganga með okkur þá leið að banna einstaklingum að halda fé í lágskattaríkjum?

Er hann þar með tilbúinn að varða leiðina um það að grípa til alvöruaðgerða með löggjöf til að senda skilaboð um að íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga sé á móti því að einstaklingar haldi fé í lágskattaríkjum og muni berjast gegn því af öllum krafti innan lands sem á alþjóðlegum vettvangi?