145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

skattaskjól.

[14:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við tökum þessa forustu, m.a. vegna þess fjölda fyrirtækja sem hér hefur átt hlut að máli. Það hefur komið í ljós, kom í það minnsta fram í máli ríkisskattstjóra í gær að hann teldi að þessi fjöldi hefði komið til á árunum fyrir 2008 og að fá félög hefðu verið stofnuð síðan. Við þurfum að fara yfir alla þessa lagabálka, hvaða tækifæri við höfum. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég vil ekki útiloka neitt í þeim efnum hvað sé skynsamlegast til að gera það. Ég held að það sé gott frumkvæði sem hefur komið frá formanni efnahags- og viðskiptanefndar þingsins um að halda opinn fund með ráðuneytinu, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og Fjármálaeftirlitinu. Ég held að þingnefndir séu eðlilegasti vettvangurinn til að opna á slíka umræðu og auka gegnsæið, koma upplýsingum til almennings og upplýsingum inn í þingið.

Ég held líka að í áframhaldinu sé eðlilegast að þingnefndir hafi eftirlit með störfum þessara stofnana. Ég tel að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að þessar stofnanir okkar hafi úr nægum efnivið að vinna, þ.e. að þær hafi bæði fjármagn og mannafla til þess. Við þurfum að fara yfir það hvort skynsamlegast sé að setja sérstakan samstarfshóp á laggirnar milli þessara aðila eða hvort hægt sé að fela þeim verkefnin með mismunandi hætti eins og verið hefur hingað til. Ég held hins vegar að það væri umhugsunarefni hvort þingið ætti að fara í skattrannsóknir á einstökum einstaklingum eða fyrirtækjum. Ég teldi að það yrði miklu betri og lýðræðislegri (Forseti hringir.) bragur á því að láta stofnanir samfélagsins um það. Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða hér í framhaldinu.