145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

skattaskjól.

[14:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef svo sem sagt áður í þessari umræðu, það er mikilvægt að við tökum höndum saman um að skoða þessi mál gaumgæfilega, horfum til annarra þjóða sem virðast margar hverjar taka á þessum málum líka þar sem um alþjóðlegt vandamál er að ræða eins og við höfum rætt hér áður í þessari umræðu.

Mér finnst ekki nein tillaga útilokuð fyrir fram. Ég held að það sé rétt að við skoðum þær allar. Mikilvægast er að átta sig á umfanginu, hvernig staðan er og hvaða verkefni þarf að vinna. Svo held ég að í framhaldinu þurfi að skipa þannig til verka að tryggt sé að málin séu skoðuð til hlítar og öll rannsökuð eins og lög gera ráð fyrir.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, eins og ég hef gert áður, til að hvetja þá aðila sem hafa ekki skilað sínu til samfélagsins til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ég tel það mjög mikilvægt tækifæri og ég held að það sé mikið ákall um það í samfélaginu að allir greiði (Forseti hringir.) til samfélagsins sem sanngjarnt er.