145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

fundur ráðherra með stjórnarandstöðunni um framgang mála.

[14:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég velti því fyrir mér, þegar hæstv. forsætisráðherra býður stjórnarandstöðunni til fundar við sig, sem upprunalega átti að vera einn og einn en ekki allir í einu, af hverju hæstv. fjármálaráðherra var ekki þar á meðal. Nú sé ég í fjölmiðlum að ástæða þess að hæstv. fjármálaráðherra gat ekki verið á fundi til þess að ræða við stjórnarandstöðuna um framgang mála og verklag þessarar ríkisstjórnar er, með leyfi forseta:

„Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun flytja opnunarræðu á ráðstefnunni Euromoney í London á morgun þar sem fjallað verður um“ — takið eftir — „endurreisn efnahagslífsins hér í kjölfar hrunsins 2008 og Ísland sem fjárfestingarkost í dag. Aðalstyrktaraðilar ráðstefnunnar eru stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, en auk þeirra koma meðal annars Gamma, Kvika, Fossar Markets, Logos-lögmannsstofa og Deutsche Bank að ráðstefnunni.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra af hverju ekki var boðað til fundarins við stjórnarandstöðuna í gær til þess að það væri fullkomlega trúverðugt að báðir flokkarnir í ríkisstjórninni séu til dæmis sammála um málaskrána sem við hreinlega getum ekki fengið. Rökin voru þau að þetta væri svo viðamikið. Það vill svo til að þessi ríkisstjórn hefur lagt fram svo fá mál, það eru svo fá mál í deiglunni, að leita þarf 20 ár aftur í tímann til að finna eitthvað viðlíka. Hvernig er eiginlega verkstjórnin í ríkisstjórninni? Er ekki neitt yfirlit yfir málin hjá ykkur?