145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

fundur ráðherra með stjórnarandstöðunni um framgang mála.

[14:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er alvitað að átök eru á ríkisstjórnarheimilinu um málefnin. Þess vegna, væntanlega, gengur illa að ná fram sátt um það hvaða mál á að afgreiða hér á þingi og kallað er eftir góðu veðri frá minni hlutanum til þess að koma áfram.

Eins og ég segi þá eru það ekkert gríðarlega mörg mál sem þarf að klára og þess vegna furðulegt að ekki sé hreinlega hægt að leggja fram þennan lista yfir málefnin og koma með dagsetningu um hvenær boða eigi til kosninga.

Mig langar því að ítreka það við hæstv. forsætisráðherra og spyrja hann jafnframt hvort honum þætti ekki eðlilegt að þetta mundi liggja fyrir eigi síðar en á föstudag. Ef það er ekki hægt, hvað er nákvæmlega því til fyrirstöðu? Ef, eins og hefur komið í ljós, málefnin eru í raun svo fá?