145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

lágskattalönd og upplýsingar um skattamál.

[15:00]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti í samtali áðan í þessum fyrirspurnatíma að hann hygðist taka forustu og frumkvæði í því að beita sér gegn vistun fjármuna á lágskattasvæðum. Mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra nánar eftir því hvernig hann hyggist beita sér í þessu máli. Telur hæstv. forsætisráðherra að formaður flokks hans þurfi að skýra betur sín skattamál og leggja allar upplýsingar á borðið? Og hvað með hæstv. fjármálaráðherra? Hvernig telur hæstv. forsætisráðherra rétt að bregðast við því að fjármála- og efnahagsráðherra hefur ekki gert rétta grein fyrir sínum málum í hagsmunaskráningu þingsins eins og sýnt hefur verið fram á? Telur hæstv. forsætisráðherra að fjármála- og efnahagsráðherra, yfirmaður skattamála landsins, þurfi að gera frekari grein fyrir sínum fjármálum?

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra að þessu. Þetta eru spurningar sem brenna á almenningi núna og eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra svari þeim, ekki síst í ljósi hans eigin ummæla í síðustu viku um að einhvers staðar verði peningar að vera og að það sé flókið að eiga peninga á Íslandi. Þetta eru ummæli sem hæstv. forsætisráðherra þyrfti að skýra betur og skýra jafnframt samhengi þeirra við það sem hann hefur upplýst núna um að hann hyggist taka forustu gegn skattaskjólum. Það er stundum sagt að það sé gott að byrja á því að líta í eigin barm og vissulega lítur svo út á þessari stundu að hæstv. ríkisstjórn þurfi einmitt að líta (Forseti hringir.) betur í eigin barm og svara nokkrum áleitnum spurningum.