145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir ræðuna. Það er rétt, sem kemur fram í máli hans, að það er þverpólitískur vilji til að breyta greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Það er ekki þverpólitískur vilji til að gera það án þess að viðbótarfjármagn komi inn í kerfið. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi.

Það er tvennt sem mig langar til að spyrja út í í frumvarpinu og greinargerðinni. Á bls. 16 er fjallað um, af hálfu velferðarráðuneytisins, veikleika í kostnaðarmati nýs greiðsluþátttökukerfis. Þar kemur fram að fyrirvarar séu á því að skiptingin gæti breyst, kostnaðarþátttökuskiptingin, að heildarkostnaður geti breyst með breyttri hegðan sjúklinga og slíkt.

Í frumvarpinu segir:

„Hægt er að aðlaga kerfið með breytingu á hámarksgreiðslu sjúkratryggðs verði útkoman önnur en áætlað er í kostnaðarmati.“

Nú er gert ráð fyrir því að almennir sjúklingar greiði að hámarki 95 þús. kr. um það bil samkvæmt þessu. En er það þá rétt skilið hjá mér, hæstv. ráðherra, að ef útgjöldin verði meiri muni það leiða til enn frekari hækkunar á því háa þaki? Að við vitum þá í raun og veru ekki hvaða þak við erum að fjalla um?