145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:28]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að með þessu frumvarpi og þeim breytingum sem hér eru boðaðar væri leitast við að líta á kostnaðarþátttöku út frá sjónarhóli einstaklingsins og þörfum hans, hafi ég tekið rétt eftir. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um að liður í því sé að einfalda kerfið.

Ég get ekki tekið undir það að einföldun kerfis þýði aukinn jöfnuð eða ríkara tillit til einstaklingsbundinna sjónarmiða þjónustuþarfa.

Hins vegar þætti mér gott að fá aðeins betur á hreint hjá hæstv. ráðherra hvernig það fer þá heim og saman í reynd og hvort ekki sé rétt skilið hjá mér, hafi ég skilið greinargerð frumvarpsins og frumvarpið sjálft rétt, að ekki standi til að draga úr heildarkostnaðarþátttöku sjúklinga heldur sé um að ræða tilfærslur frá einum hópi sjúklinga yfir á annan. Það sé lækkað á þeim sem bera mestan kostnað, það sé sett upp undir ákveðið þak, en það sem út af stendur eða byrðin sem af því hlýst veltur, ef ég skil rétt, þá á aðra sjúklinga sem þurfa í minna mæli að nýta sér heilbrigðisþjónustuna. Er þetta ekki rétt skilið hjá mér, hæstv. ráðherra?