145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég skal glaður taka undir það með hv. þingmanni að mjög gott væri að geta gert þetta þannig. Ég lít svo á að það séu næstu skref sem þurfi að taka. Ég er sannfærður um að ef við afgreiðum frumvarpið í þeirri mynd sem það liggur fyrir verði þingið í betri færum til að meta hvaða breytingar þurfi nauðsynlega að gera til að mæta þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefndi.

Fyrsta skrefið að taka er að við höfum sameiginlega sýn til kerfisins alls og vitum í rauninni hvað liggur þar undir. Í dag höfum við ekki neina heildarsýn á þetta. Það er það sem ég er að segja. Við sjáum og megum ekki líta fram hjá því að við erum vissulega að gera ákveðnar breytingar fyrir tiltekna hópa.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að um 40 þús. barnafjölskyldur eiga möguleika á að vera með börnin gjaldfrjáls í þeirri þjónustu í heilbrigðiskerfinu sem hér liggur undir. Er það ekki áfangi? Jú. Það er vissulega áfangi. En ég er sammála því að það væri kostur ef við gætum séð það að fá aukna fjármuni til frekari niðurgreiðslu í íslenska heilbrigðiskerfinu á kostnaði sjúklinga. (Forseti hringir.) Ég skal alls ekki liggja á þeirri skoðun minni og deili skoðun með hv. þingmanni í þeim efnum.