145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó að ég verði að viðurkenna að það séu mér nokkur vonbrigði að hv. þingmaður sem ég veit að hefur mjög mikinn áhuga á heilbrigðis- og velferðarmálum skuli ekki vera til í að koma í þá vegferð að fara í það að hækka skatta. Það þarf ekki að hækka alla skatta, það er hægt að fara í ýmiss konar skattkerfisbreytingar.

Vegna þess að hv. þingmaður talaði um að auka verðmætasköpunina og stækka kökuna verð ég að viðurkenna að ég held að okkur sem erum í stjórnmálum í upphafi 21. aldarinnar sé ansi miklu þrengri stakkur sniðinn í því en kynslóðunum sem voru á undan okkur í pólitík. Það er einfaldlega mín trú að ef við ætlum að ná tökum á þeim stóru umhverfislegu málum sem snúa að okkur núna, t.d. með hnattrænum breytingum, hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum, getum við ekki leyft okkur að stækka kökuna endalaust. Nú er bara komið að því að við verðum að skipta jafnar því sem við höfum. Það er mín sýn á málið.

Hv. þingmaður gaf mér vissulega hreinskilið svar í andsvari sínu, hann telur ekki að við þurfum, ef okkur er alvara með því og viljum skoða málin í hinu stóra samhengi, að upphugsa aðrar leiðir en bara að ætla að stækka hagkerfið okkar og þannig (Forseti hringir.) skapa aukið fé til að setja meðal annars í velferðarkerfið.