145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er ánægð með að þetta mál sé komið inn í þingið. Ég held að þetta sé gott skref en ítreka að það er bara skref í rétta átt. Ég tek undir það sem fram hefur komið hér í ræðum með að þakið er of hátt. Það er það kannski ekki fyrir alla en það getur mjög auðveldlega orðið of hátt ef margir fjölskyldumeðlimir lenda í því í einu, t.d. á einu ári eða því tímabili sem um ræðir, að þurfa að fara í rannsóknir og sækja sér læknisþjónustu. Ég held að verkefnið sem við verðum öll að vinna að hljóti að vera að lækka þann kostnað.

En það er algjörlega ótækt eins og staðan er í dag að það sé bara eitthvert hipsumhaps eftir því hvaða sjúkdóma fólk fær hver kostnaður þess er í kerfinu. Það er nokkuð sem okkur ber skylda til að bregðast við. Þess vegna er ég í rauninni ánægð með þetta mál. Mig langar að nota tækifærið og þakka fólkinu sem sat í þessari nefnd. Ég veit að þetta var gríðarlega mikil vinna. Við í Bjartri framtíð áttum fulltrúa í nefndinni. Þetta er ólaunað eins og oft er í svona vinnu. Ég les hérna skýrsluna og það hafa verið umræður um hinar og þessar útgáfur. Þetta er rökstutt og mér finnst gott að lesa þessa skýrslu, Nýtt greiðsluþátttökukerfi: Helstu þættir til skoðunar við mótun heildstæðs greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðisþjónustu, frá mars 2015. Maður sér að hér hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar og það er rökstuðningur með og á móti og síðan á endanum hafa hreinlega í einhverjum tilfellum verið greidd atkvæði um að hvaða niðurstöðu hópurinn ætti að komast.

Það sem við erum öll sammála um, allir flokkar, og hæstv. ráðherra hefur líka lagt áherslu á er að það er gríðarlega mikilvægt að efla heilsugæsluna og að fólk leiti í það úrræði sem á að vera ódýrasta úrræðið. Það eru einhverjar tilraunir til þess að gera það. Ég held að það sé ekkert auðvelt verkefni. Ég held að allir flokkar séu tilbúnir að koma að því og koma með hugmyndir í þá veru. Mér finnst gott að það eigi að setja sálfræðinga inn í heilsugæsluna, mér finnst það mjög mikilvægt, en mig langar líka að nefna aðra sérfræðinga sem ég held að séu ekki síður mikilvægir og það eru næringarfræðingar. Við erum, eins og flest Vesturlönd, í rauninni í þeirri stöðu að lífsstílssjúkdómar eru algengir. Þeir eru kostnaðarsamir, offita og annað sem orsakast kannski af röngu mataræði og hreyfingarleysi, sjúkdómar sem í raun er hægt að fyrirbyggja, en hafa bæði kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og svo auðvitað skaða fyrir þá sjúklinga sem lenda í þessu. Þegar maður les um fólk sem náði með því að breyta um lífsstíl að borða sig frá lyfjum hugsar maður: Af hverju setjum við ekki púður og peninga í þetta strax í upphafi? Einhverjir þurfa eflaust að vera á blóðþrýstingslyfjum og alveg sama hvað þeir gera verður því ekki breytt, en við vitum líka að lífsstíllinn skiptir máli. Það er ekki þannig að allir viti sjálfkrafa hvað er hollt og hvað þeir eiga að borða og allir geti bara farið út að skokka á morgun. Fólk þarf aðstoðar við og við eigum að veita hana. Við getum sagt að þetta séu forvarnir og þarna mundi ég vilja sjá heilsugæsluna koma miklu sterkari inn. Ég man aldrei eftir því að nokkur manneskja sem ég þekki, liggur við, hafi verið send til næringarfræðings, manneskja sem hefur leitað til heilbrigðisþjónustunnar með sína kvilla sem jafnvel í einhverjum tilvikum orsakast beinlínis af röngu mataræði og röngum lífsstíl. Þessi þjónusta er þarna úti en við eigum að koma með hana inn í heilsugæsluna og vera miklu virkari í að hjálpa fólki í að hjálpa sér sjálft. Það má ekki bara ganga út frá því að allir viti hvað er hollt. Ég gæti haldið langan fyrirlestur hér um hvað merkingar á matvælum eru oft óskiljanlegar og aðgengið að óhollustu næstum betra í sumum tilfellum en að hollum og góðum mat. Sá matur er líka oft ódýrari vegna þess að sykur er ódýrt uppfyllingarefni og skattur á hann var lækkaður hérna, sællar minningar, ég var ekki alveg sátt við það.

Í þessu skrefi sýnist mér vera gerð tilraun til að fara í meiri stýringu hvað varðar börn sem ég held líka að sé skref í rétta átt. Ég veit ekki hvort ég á endilega að tala um tilvísunarkerfi en það á að beina fólki í ódýrasta úrræðið, í gott úrræði, sem væri þá heilsugæslan, og þaðan væri fólki stýrt út í önnur kerfi í staðinn fyrir að í dag getur fólk farið þangað sem það kýs. Stundum er ekki mjög mikil yfirsýn yfir það sem er í gangi.

Kannski voru uppi efasemdir um lyfjagreiðslukerfið þegar það var tekið upp á sínum tíma sem ég upplifi að hafi síðan reynst vel. Eins og er útskýrt hérna er meiri óvissa með þá leið sem ákveðið var að fara en greiðsluþátttökuleiðina, þ.e. sú leið sem varð fyrir valinu er leiðin sem Pétur H. Blöndal heitinn, fyrrverandi hv. þingmaður, hannaði í raun. Hans þáttur í þessu má heldur ekki gleymast. Þetta hefur verið gríðarlega mikil vinna og mér finnst ótrúlegt að menn hafi þó meira og minna náð niður á einhverja lausn sem var þokkaleg sátt um þó að auðvitað séu ákveðnir aðilar hérna sem rökstyðja afstöðu sína í þessu máli. Það er líka gott að þá hafi bara verið greidd atkvæði til að komast að niðurstöðu. Það er lýðræðislegt.

Það er ákveðið að fara leið sem er eins og kemur fram með einhverjum óvissuþáttum en ég held að það sé óhjákvæmilegt. Við verðum að taka þetta skref og vera opin og viðbúin því að það geti þurft að sníða af einhverja agnúa. Ég held að það sé verra ef við ætlum að vera alveg ótrúlega gagnrýnin í upphafi. Ef við sjáum ekki agnúana, þeir koma væntanlega í ljós í umsagnarferlinu, látum við á það reyna en verðum jafnframt viðbúin því að við gætum þurft að breyta þessu. Alþingi gæti þurft að fara í breytingar og þá gerum við það. Það er verra að vera alltaf svo hræddur við að gera eitthvað að menn fresta öllu.

Ég þakka fyrir að fá þetta mál inn í þingið. Ég er ánægð með þetta þó að, eins og ég ítreka, mér finnist fullhár þessi kostnaður upp á 150–160 þúsund sem einstaklingur getur lent í að þurfa að greiða að hámarki á einu ári sem er þá bæði fyrir lyf og þátttöku í heilbrigðiskerfinu að öðru leyti. Ég held að við séum öll sammála um að verkefnið sé að lækka þann kostnað.