145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá miklu og góðu umræðu sem hefur farið fram í dag um þetta mikilvæga mál sem ég held samandregið hafi í máli sérhvers þingmanns sem hefur tjáð sig verið langþráð að gera breytingar á fyrirkomulagi greiðslna sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu. Ég vil þó segja að ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar var með þeim hætti að það var eins og hann talaði af virðingarstól langt ofan þingsins þegar hann leit yfir sviðið og dró þetta saman mjög einfalt og kjarnyrt sem hans er von og vísa þegar hann dró fram meginatriði þessa mikilvæga máls.

Í fyrsta lagi. Það er stór hópur og nokkur hópur fólks sem býr við þá nöturlegu staðreynd að lenda í greiðslugildru og hefur lent í því að þurfa að segja sig til sveitar vegna viðskipta við íslenska heilbrigðiskerfið. Það er frumskylda okkar sem velferðarþjóðfélags að koma málum og skipa málum á þann hátt að það fólk njóti sambærilegs réttar og við hin. Í öðru lagi er rætt um og gerð er tillaga um það að 40 þús. barnafjölskyldur eigi möguleika á því að fría börn sín kostnaði í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Útfærslan kann að vera undarleg eins og kom fram hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, en hugsunin er sú að það verði gert með þeim hætti að taka upp tilvísunarkerfi. Það er algjör óþarfi að blanda því saman við einhverja ályktun sem kemur frá Læknafélagi Íslands sem að stórum hluta byggði á ákveðnum misskilningi hjá forustu þess ágæta félags, því að fjármögnunin á þeim áformum sem fyrir liggja í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um fjölgun þriggja heilsugæslustöðva eru að fullu fjármögnuð í þeim fjárlögum sem þingið samþykkti, svo það sé sagt eina ferðina enn.

Þetta mál er fyrsta skrefið í þá átt að einfalda kerfið. Fyrsta skrefið í að forða okkur frá því að leggja einhverjar ofurálögur á sérstaklega langveikt fólk. Við leggjum upp úr því að vernda börn og langveika og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hraða vinnslu málsins sem mest við megum til að geta síðan í fjárlagagerð fyrir árið 2017 tekið á þeim vanköntum sem fram hafa komið í máli margra ræðumanna í dag, þ.e. það vantar inn fjármuni hér og þar til niðurgreiðslu á ákveðnum þáttum í íslenskri heilbrigðisþjónustu.

Ég vil þó segja um geðheilbrigðismálin og sálfræðiþjónustuna, sem nefnt hefur verið í umræðunni og í ræðum margra þingmanna, að meginstefnan sem ég hef kynnt í þeim efnum er að sálfræðingur skuli vera kominn inn á hverja einustu heilsugæslustöð í landinu innan þriggja ára. Við erum að hefja fyrstu vegferð í því núna á þessu ári með því að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslunni um allt land og erum að keyra þetta eftir bresku módeli á þann veg að miða við það að á árinu 2019 verði komin sálfræðistaða inn á hverja einustu heilsugæslustöð í landinu. Ég vænti þess að okkur muni ganga það ágætlega. Ég get þó skotið því inn líka rétt til upplýsingar að ég var að fá þær upplýsingar frá forstjóra Landspítalans rétt áður en ég kom í þessa ræðu að biðlistar á göngudeild á barna- og unglingageðdeildinni hafa dregist verulega saman núna á milli ára. Þannig að eitthvað erum við að gera vel í þjónustunni með okkar ágæta starfsfólki.

Þegar rætt er um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, við hvað eru menn þá að miða? Menn segja hér að hún sé veitt víða í okkar næstu nágrannalöndum. Það stemmir ekki við þær upplýsingar sem fengnar eru frá OECD. Ég hef ekki rekist á neitt einasta nágrannaland þar sem heimilin bera ekki eitthvert hlutfall af útgjöldum til heilbrigðismála. Ég bið þá hv. þingmenn að upplýsa mig um það land þar sem hlutfall heimila í útgjöldum á heilbrigðismálum er núll. Það er ekki í þeim upplýsingum sem ég hef fengið og langur vegur frá. Því skal líka haldið til haga þegar við ræðum um auknar álögur á sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu að hlutdeild þeirra hefur verið að lækka. Hún er núna í árslok 2015 18,2% af heild og hefur ekki verið lægri síðan árið 2009. Frá árinu 1998 þar sem hún var mjög há, 19,4%, þá hefur þetta legið langleiðina í 19 prósentin allt frá þeim tíma. Það eru örfá ár þar sem þetta fer niður í 18%. Að meginstofni til hefur hlutdeild heimila á Íslandi í heilbrigðiskostnaði sem betur fer, sérstaklega á síðustu fjórum árum, verið að lækka hægt og bítandi og tók verulegt stökk niður á við á milli áranna 2014 og 2015. Ég vil að þess sé gætt þegar menn eru að ræða það og gefa til kynna að hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sé að hækka ár frá ári. Það er ekki rétt miðað við þær mælingar sem við erum að gera. Að hluta til stafar það af því sem ágætissátt hefur verið um í þessum sölum að greiða niður tannlæknakostnað barna og unglinga og gleymist oft þegar verið er að ræða um hlutdeild fólks í útgjöldum vegna heilbrigðismála.

Ég fagna því sérstaklega þegar ég heyri þær raddir að fólk hafi mikinn skilning á þessu máli. Við höfum sama skilning á því að þetta sé kerfisbreyting. Ég tel einboðið að við í þinginu einhendum okkur í að afgreiða málið á þessu vorþingi með það sérstaklega í huga að við getum keyrt kerfið í gang þegar líður á árið og fullfjármagnað það sem hugur þingsins stendur til í því sem út af stendur við fjárlagagerð fyrir árið 2017.