145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og vitnað til Frakklands eða Danmerkur o.s.frv. þá getur vel verið að það varði einstaka sjúkdómaflokka eða einstaka sjúklingahópa en það er rangt að gefa til kynna að heilbrigðisþjónusta sé algjörlega gjaldfrjáls fyrir fólk í þessum löndum. Samkvæmt upplýsingum mínum er hlutdeild heimilanna í Danmörku í útgjöldum til heilbrigðismála 13,7% og í Frakklandi, af því að það var nefnt sérstaklega, eru það 6,7%. Þetta er árið 2013. Þannig gæti ég talið upp hvert einasta land í Evrópu. Alls staðar er greiðsluþátttaka heimila í heilbrigðisútgjöldum einhver. Það er rangt að gefa til kynna að þetta sé algjörlega gjaldfrítt fyrir heimili í næstu löndum. Þetta er samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef. En ég heyri að Samfylkingin talar mjög fyrir gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og með því yrðum við einstök í veröldinni eða í næsta nágrenni okkar, sem er út af fyrir sig ágætt.

En við erum í þessu efni að ræða breytingar á gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu sem áætluð er að kosti 6,5 milljarða. Þar fyrir utan og til viðbótar er áætlaður kostnaður hátt í 40 milljarðar kr. af ýmsum þáttum. Sennilega er tannlæknaþjónusta fólks þar hæsti útgjaldahlutinn, áætlaður rétt tæpir 10 milljarðar kr. Lyf eru tæpir 9 milljarðar o.s.frv. Í heildina er þetta 30–40 milljarðar kr. sem í það minnsta eru fyrir utan þá 6,5 milljarða sem við erum að ræða.

Ég vil undirstrika að í umræðu um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu skora ég á hv. þingmann að koma með dæmi um land þar sem hlutfall heimila í heilbrigðisútgjöldum, heilbrigðismálum, er núll. Ég hef ekki fundið það (Forseti hringir.) og sérfræðingar mínir hafa ekki fundið það enn þá.