145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér alls ekki að lengja þessa umræðu en vegna ummæla hæstv. ráðherra og þeirra talna sem hér koma fram verð ég að segja eins og er að mér finnst gögnin sem fylgja frumvarpinu ekki nógu ítarleg. Á bls. 6 er fjallað um skýrslu nefndar sem stýrt var af Pétri H. Blöndal heitnum. Þar segir:

„Í Danmörku er almenn heilbrigðisþjónusta gjaldfrjáls, en greiða þarf til dæmis fyrir sérfræðiþjónustu ef hún er sótt án tilvísunar.“

Þetta gerði ég að umtalsefni. Hér er fjallað um ákveðna þætti í heilbrigðisþjónustu og tannlækningar eru þar utan við. En þá held ég að það sé meira verk fyrir höndum hjá hæstv. velferðarnefnd og þeim sem þar sitja að fara í gegnum þetta til þess að fá hið sanna fram og komast að niðurstöðu um það.

Ég fór á ágætan kynningarfund hæstv. ráðherra í ráðuneyti hans um heilsugæsluáformin hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér þótti það mjög athyglisvert sem þar kom fram að ekki er vitað hve marga hér á höfuðborgarsvæðinu vantar að skrá sig hjá heilsugæslulækni en það hefur komið fram við þá vinnu að menn eru jafnvel tví- eða þrískráðir. Ég verð bara að segja eins og er, virðulegi forseti, að kerfið heldur ekki nógu vel utan um þetta þannig að við höfum nákvæmar upplýsingar um hvað er á ferðinni. Þá leyfi ég mér að spyrja um töluna sem sett er fram í kostnaðarumsögn, um 6,5 milljarðar. Það verður hlutverk velferðarnefndar að kafa betur ofan í það dæmi til þess að komast að niðurstöðu um það hver greiðsluþátttakan er nákvæmlega. Ég tók öllum þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram eins og nýju neti. En auðvitað vissum við um kostnaðarþátttöku varðandi lyf og annað slíkt út frá kerfinu sem tekið var upp 1. maí 2013.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja 1. umr. meira en ég hef þegar gert. Ég vildi tjá mig um þetta. Ég tel að þetta sé skref í rétta átt en mér sýnist að mikið verkefni sé fyrir höndum hjá velferðarnefnd við að fara í gegnum þetta og þá alveg sérstaklega að tína fram nákvæmar upplýsingar um kostnaðarþátttöku og gera sér grein fyrir hvað ríkið leggur fram á móti og hvað þyrfti að koma inn til þess að gera heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa eins og ég nefndi að raunin væri í Danmörku.