145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Við flest í þessum sal og sem störfum í þessu húsi þekkjum ljómandi vel þetta mál og óþarfi að rekja í löngu máli forsögu þess og hvers vegna það er hér fram borið og fram komið.

Hins vegar er vert að minnast þess og muna vegna þess að stórt skref er stigið með því að ræða málið. Þetta er umræðuefni sem íslensk stjórnvöld og íslensk þjóð hefur lengi tekið um mikilvægi þess að setja landinu okkar þjóðaröryggisstefnu. Nú hefur það tekist og við erum að ræða það. Ekki aðeins hefur það tekist ljómandi vel heldur hefur það tekist í ljómandi góðri sátt, sem er ekki sjálfgefið í eins risastórum alþjóðlegum og utanríkispólitískum viðfangsefnum og hér eru til umræðu. Ég vil því árétta að ég tel í þessu fólgin talsverð kaflaskil í umræðu um utanríkismál og sérstaklega það hvernig hefur verið unnið að málinu og hvernig þingið, þingheimur og allir þingmenn hafa í umræðunni og þeirri nefndarvinnu sem fram hefur farið um málið, sýnt það sem svo gjarnan er kallað eftir, og meðal annars úti á Austurvelli núna, þ.e. ákveðið samráð og samtal um hluti sem skipta miklu máli fyrir þjóðina. Mér finnst það hafa tekist mjög vel að þessu sinni.

Saga málsins er sú, eins og við þekkjum flest, að stefnan var fyrst lögð fram í þessu formi, þ.e. tillaga til þingsályktunar lögð fram af hæstv. utanríkisráðherra á 144. þingi. Þá voru nefndarfundir um málið og málið var til umræðu í hv. utanríkismálanefnd á níu fundum en ekki tókst þá að klára málið. Það var síðan lagt fram aftur af þáverandi hæstv. utanríkisráðherra á þessu þingi og utanríkismálanefnd hefur núna fjallað um málið á sex fundum auk þess sem ýmsir aðrir fundir utan hefðbundins fundartíma hv. utanríkismálanefndar hafa farið í að tryggja það að málið væri hægt að vinna vel og örugglega.

Mig langar að nota tækifærið og þakka nefndarmönnum, hv. þingmönnum, sem sæti eiga í utanríkismálanefnd fyrir samstarfið hvað þetta mál varðar og fyrir góðar og uppbyggilegar umræður og fyrir þann sameiginlega vilja sem birtist þar í að tryggja að um þetta næðist góð og mikilvæg samstaða. Þess vegna er nefndarálitið lagt fram af öllum hv. þingmönnum sem sæti eiga í hv. utanríkismálanefnd, fyrir utan fulltrúa Vinstri grænna, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur sem ritaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Hún kom hins vegar mjög mikið að lausninni hvað það varðar en við vitum og skiljum að afstaða Vinstri grænna og hv. þingmanna þess flokks er í grundvallaratriðum öðruvísi en margra og flestra okkar sem hér sitjum og við virðum auðvitað afstöðu þeirra og sérstöðu sem verið hefur í málinu.

Mig langar líka aðeins að nefna eitt af því að ég sem stjórnmálamaður hef lengi verið hrifin af þeirri leið að leita lausna og sameiginlegra lausna og leiða þegar það er í boði. Þess vegna held ég að það hafi verið til algjörrar fyrirmyndar þegar þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, skipaði nefnd tíu þingmanna til að vinna tillögu að þjóðaröryggisstefnu á sínum tíma fyrir Ísland á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi eins og menn þekkja. Þá fól ráðherra hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur formennsku í nefndinni og í nefndinni tóku síðan sæti fulltrúar allra flokka sem unnu að verkefninu sameiginlega. Ég er þeirrar skoðunar að svona upphaf í mikilvægri vinnu sé yfirleitt og kannski alltaf ástæða þess að vel tekst til í stórum málum. Nefndin tók sér tíma í að fara yfir það risastóra mál og því er lýst í tillögu til þingsályktunar sem við höfum haft hér frammi frá þeim tíma sem hún var lögð fram af hæstv. utanríkisráðherra þar sem störfum þeirrar þingmannanefndar er lýst og þeim áherslum sem þar var talið mikilvægast að mæla fyrir og leggja áherslu á.

Ég ætla ekki að fara yfir það í neinum smáatriðum í dag en vil þó vekja athygli á því hvað í bréfi nefndarinnar, þ.e. skilabréfi nefndarinnar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og í þeim pappírum og öllu því sem fylgir því verkefni, er mikið og yfirgripsmikið yfirlit yfir það helsta sem er að gerast í utanríkismálum þjóðarinnar á hverjum tíma. Sérstaklega vil ég vekja athygli á því sem þingmannanefndin fór rækilega og vel yfir sem eru nýjar ógnir og nýir áhættuþættir í því utanríkispólitíska umhverfi sem við búum við. Mér finnst einnig til mikillar fyrirmyndar hvernig þar er leitast við, sem er auðvitað verkefni þjóðaröryggisstefnu en getur verið vandmeðfarið og snúið en mér finnst hafa tekist vel til hér, að blanda saman því sem á flestum tímum er innanríkismál sem er almannaöryggistengd viðfangsefni og síðan því sem tengist utanríkispólitískum verkefnum. Þess vegna tókst vel til með verkefnið og þess vegna náðist samstaða um þessa þætti í þingmannanefndinni þar sem hv. þingmenn úr öllum flokkum áttu sæti. En að sjálfsögðu eins og ég benti á áðan og svo sem fyrirsjáanlega voru fulltrúar Vinstri grænna með aðra áherslu en aðrir í nefndinni og þá sérstaklega hvað varðar veru Íslands í NATO, Atlantshafsbandalaginu, afstöðunni til varnarsamningsins sem er líka önnur hjá þeim hv. þingmönnum en okkur flestum hér og endurspeglast í þessu. Eðlilega er það að mínu mati samt sem áður grunn- og megintónninn í þessu plaggi.

Af allri þessari fínu vinnu fæðist svo þessi tillaga til þingsályktunar þar sem unnið er úr þessu nefndarstarfi og lögð fram að mínu mati yfirgripsmikil en um leið talsvert skýr og fókuseruð þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland. Við höfum á fundum hv. utanríkismálanefndar, þeim sex fundum sem ég nefndi, auðvitað byggt á þeirri góðu vinnu sem unnin var í hv. utanríkismálanefnd undir forustu hv. þm. Birgis Ármannssonar og komum svo sem að góðu verki þar og mikilli og góðri undirbúningsvinnu sem við tókum í fangið og reyndum að vinna í samræmi við það.

Nefndin hefur í þessari atrennu, á þessu þingi núna, fjallað um málið og fengið á sinn fund marga gesti og þeir koma fram í upptalningu nefndarálitsins, þ.e. Jörundur Valtýsson, Arnór Sigurjónsson og Axel Nikulásson frá utanríkisráðuneyti, Þórunn J. Hafstein og Sigurður Emil Pálsson frá innanríkisráðuneyti, og Hugi Ólafsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Ég vil aðeins nefna að talsverð umræða var um það á fyrri stigum, þ.e. á 144. löggjafarþingi og svo aftur núna í hv. utanríkismálanefnd, hvort hugað væri nægilega skýrt og afdráttarlaust að þeirri umhverfisógn sem við stöndum frammi fyrir og getum staðið frammi fyrir, hvort henni væri mætt nægilega í þessu plaggi. Til að tryggja að svo væri voru fengnir gestir til að fara yfir það auk þess sem, ég mun koma inn á það á eftir, nefndin lagði sitt af mörkum til að skerpa á þeim þætti og það var einnig gert á 144. löggjafarþingi, að álykta það í plagginu, í ályktuninni, að tekið væri mið af því og sett í fyrsta punktinn um þjóðaröryggisstefnuna að horft væri sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna. Því atriði var því bætt inn til að tryggja að það væri skýrt.

Einnig hafa komið á fundi nefndarinnar Ásgrímur L. Ásgrímsson og Jón B. Guðnason frá Landhelgisgæslunni, Jón Svanberg Hjartarson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Stefán Pálsson frá Samtökum hernaðarandstæðinga, Guðjón Idir Guðnýjarson frá IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, og Júlíus Sigþórsson sem er afar … (Gripið fram í: Sigurþórsson.) Fyrirgefið. Vissara að hafa þetta rétt, Júlíus Sigurþórsson. Hann er afar skemmtilegur, sjálfmenntaður að hluta til, einstaklingur sem gjarnan hefur komið á fundi og sent inn erindi þegar um er að ræða viðfangsefni er tengjast utanríkispólitískum samskiptum, sérstaklega ef það inniheldur upplýsingar um Sovétríkin og Rússa, þá kemur hann á fund nefndarinnar og bætir iðulega við góðum og mikilvægum upplýsingum.

Þá bárust nefndinni líka umsagnir frá Landhelgisgæslunni, Samtökum hernaðarandstæðinga, IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, og svo þeim einstaklingi sem ég nefndi áðan, Júlíusi Sigurþórssyni.

Líkt og kemur fram í tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að fylgja stefnu um þjóðaröryggi í tíu tölusettum liðum sem tryggi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Stefnan byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót með þingsályktun nr. 45/139 frá 16. september 2011.

Í tillögunni sem nú er komin til síðari umr. felst að þjóðaröryggisstefna verði byggð á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.

Síðan eru áréttaðar helstu áherslur þjóðaröryggisstefnunnar sem samkvæmt tillögunni eru:

Að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.

Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands.

Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins.

Að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf.

Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.

Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum.

Að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Að stuðla að auknu netöryggi.

Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

Að sett verði á laggirnar með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti og standi fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Síðan kemur fram nákvæmlega á hvaða vinnu þetta er byggt í áðurnefndri þingmannanefnd og einnig hversu mikilvægt þetta er. Er áréttað í áliti nefndarinnar hversu mikið við í raun og veru fögnum því að þetta sé komið fram og að Alþingi samþykki stefnu um þjóðaröryggi sem ríkisstjórn verði falið að fylgja.

Það er samt svo, virðulegur forseti, og ágætt er að árétta það að þegar um svona stórt mál næst ákveðin sátt þá felur það auðvitað í sér málamiðlanir. Það var gert í vinnu nefndarinnar. Það var bæði gert í kjölfar þeirrar vinnu sem fór fram á 144. löggjafarþingi og svo aftur núna, að bæði gerðum við sem í nefndinni sitjum ákveðnar málamiðlanir til að tryggja það að við gætum öll staðið að grunnþáttunum í nefndarálitinu og í þessari stefnu. En síðan fól það líka í sér samtal, sem ég vil þakka fyrir, við fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sem einnig varð til þess að við náðum að vinna þetta með góðum og öruggum hætti í nefndinni.

Það sem ég tel líka og vil árétta og þess vegna finnst mér stefnan vera mjög góð og til mikillar fyrirmyndar, að bara á þeim umliðnum nokkrum mánuðum sem ég hef setið sem formaður hv. utanríkismálanefndar og á þeim nokkru árum sem liðin eru frá því að kjörið var til nýs þings hefur ótrúlega margt breyst í alþjóðlegu umhverfi, í utanríkismálum og utanríkispólitík almennt. Engu að síður hefur stefnan sem unnin var af þeirri þingmannanefnd sem ég nefndi áðan staðið í grundvallaratriðum fyrir sínu. Ekki hefur þurft að taka meiri háttar eða stórtækar ákvarðanir um breytingar þar á sem segir að þessi stefna getur að mínu mati staðist tímans tönn og unnið með okkur með þeim hætti sem við teljum mikilvægt.

Ég vil að lokum, virðulegur forseti, nefna að við gerum ákveðnar breytingar. Nefndin leggur til ákveðnar breytingar og þó að þær virðist ekki stórar eða stórvægilegar, enda náðist um þær ljómandi góð sátt, fela þær í sér ákveðna breytingu sem til dæmis er, eins og ég nefndi áðan, að með ríkari og kröftugri hætti tökum við tillit og mið af umhverfisþáttunum og nefnum það sérstaklega. Við teljum það endurspegla betur en þegar því var sleppt, vinnuna sem fór fram í þingmannanefndinni.

Einnig voru ákveðnir þættir sem eru taldir upp í vinnu þingmannanefndarinnar og lúta að því sem ég nefndi áðan um þá þætti sem móta þær ógnir sem við stöndum frammi fyrir nú og þá helstu áhættuþætti og er þeim raðað í ákveðna flokka á bls. 5 í tillögunni til þingsályktunar. Við töldum ástæðu til að árétta ákveðna þætti þar. Við töldum að þar þyrfti að bætast við og skerpa þyrfti á ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum. Þetta kæmi inn í textann í 7. tölulið.

Einnig töldum við mikilvægt, og það var kannski sérstaklega áberandi eftir umræðuna sem verið hefur á alþjóðavettvangi undanfarið, að inn komi nýr töluliður þar sem við bætum við: Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þetta töldum við einnig mikilvægt og vorum öll sammála um að taka inn. Þetta fer inn á eftir 8. tölulið.

Síðan komi á eftir orðunum „framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar“ í 10. tölulið: endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni.

Að öðru leyti eru þeir liðir sem upp voru taldir óbreyttir, en við áréttum og teljum það mjög mikilvægt að í upptalningunni í tillögunni til þingsályktunar sé hver liður talinn jafn mikilvægur og annar. Við leggjum ekki áherslu á að þeir sem lesi stefnuna eða vinni eftir henni telji að þetta eigi við um mikilvægi þáttarins, þ.e. að númer eitt væri þá mikilvægast og það sem væri neðar væri minna mikilvægt. Við áréttum það og ég vil taka það sérstaklega fram því að það var stór mikilvægur þáttur í umræðu hv. utanríkismálanefndar að allar áherslurnar hefðu jafnt vægi og þess vegna kemur við 5. mgr. tillögugreinarinnar svohljóðandi breyting: Á eftir orðunum „eftirfarandi áherslur“ komi: sem hafi jafnt vægi.

Þetta var mjög mikilvægt til að ná samstöðu um þingsályktunartillöguna og til að ná samstöðu um þá stefnu sem hér er lögð fram. Í kjölfar þeirrar vinnu sem að mínu mati tókst svona ljómandi vel þá skrifa allir nefndarmenn, allir hv. þingmenn í utanríkismálanefnd, undir breytingartillöguna og undir nefndarálit hv. utanríkismálanefndar, nema fulltrúi Vinstri grænna sem undirritar með fyrirvara. Einnig lét Birgitta Jónsdóttir þess sérstaklega getið og kom því áleiðis samkvæmt formreglum þar um að hún væri samþykk áliti þessu.

Um málið tókst því mjög góð og víðtæk sátt og samstaða. Ég held að við getum verið stolt af því að leggja fram þessa stefnu, stolt af því ef hún verður, sem ég vonast auðvitað til, samþykkt og fari þá að vera sú stoð sem hún á að vera fyrir íslenskt samfélag. Ég árétta og ítreka þakkir sem ég hef áður beint til þeirra sem unnu málið áður en ég kom að því og það voru margir. Ég vona að um málið náist góð og víðtæk samstaða.