145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[19:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef enga spurningu til hv. formanns utanríkismálanefndar en notfæri mér rétt minn til andsvars til að gefa svolitla yfirlýsingu.

Ég tel að þetta sé söguleg stund á Alþingi Íslendinga. Hér erum við komin í lokaáfanga þess að samþykkja í fyrsta skipti þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Það stappar nánast pólitísku kraftaverki næst að allir flokkar á Alþingi, frá báðum jöðrum og yfir miðjuna, séu sammála, með þeim fyrirvörum sem einn tiltekinn flokkur gerir grein fyrir hér á eftir. Það hefði sennilega þótt saga til næsta bæjar á hvaða tíma lýðveldisins sem er. En ekki síst núna þegar viðsjár eru miklar í samfélaginu.

Ég tel að það sé mikið gæfuspor og gæfumerki að löggjafarþinginu skuli takast á þennan hátt að móta framtíðarstefnu í jafn afdrifaríku máli án þess að þar beri nokkuð frá.

Ég vil sérstaklega nota tækifærið og þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir að hafa náð því að stýra málinu til endanlegra lykta. Það hefði ekki tekist nema vegna þess að fallist var á tilteknar málamiðlanir. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þær málamiðlanir gefi þessari ályktun aukið vægi og brjóti enn frekar í blað vegna þess að þar erum við í reynd að setja inn í tillögugreinina afleiðingar af því að við höfum víkkað verulega út hið hefðbundna öryggishugtak og tökum núna undir stefnuna, sem á að horfa til framtíðar um öryggi þjóðarinnar, óhefðbundnar ógnir eins og umhverfismál, fæðuöryggi og heilbrigðismál.

Við þurfum nefnilega alltaf sem stjórnvald að hugsa fyrir því sem er óhugsandi. Það eru menn að reyna að gera þarna.

Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir farsæla stjórn á þessu máli.