145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[19:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil taka undir það með öðrum sem hafa talað á undan að ég held að það verði nokkuð söguleg stund ef okkur tekst að samþykkja þjóðaröryggisstefnu á Alþingi Íslendinga, jafnvel þótt einn flokkur skrifi undir hana með fyrirvara.

Ég held að það sýni mest hvað heimurinn hefur breyst. Kalda stríðið er búið og heimurinn hefur séð að betra er að standa saman og horfa á framtíðina frá sama sjónarhorni heldur en að vera alltaf í miklum átökum, þó að því miður séu átök enn mjög þekkt hér.

Önnur ástæða fyrir að þetta er hægt er að þótt hin klassíska varnar- og öryggismálastefna sé auðvitað mikill hluti af þessari stefnu og tillögu sem við ræðum þá er breið skilgreining á öryggishugtakinu. Síðan er það enn fremur áréttað í nefndaráliti utanríkismálanefndar að við þurfum að líta á alla þá vá sem er í kringum okkur og hugsa þetta allt í einu stóru samhengi, innanríkismál og utanríkismál. Það er ekki lengur þannig að þetta sé allt saman hvort í sinni skúffunni.

Það hefur verið mér mikill heiður og ánægja og mjög lærdómsríkt að stýra þessari nefnd og að kynna okkur, eins og við þurftum að gera, alla þá þætti nákvæmlega sem um er fjallað.

Ég hef áður sagt að það var ánægjulegt að þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson tók málið, ef svo má segja, upp á nýju kjörtímabili því að okkur tókst ekki að skila skýrslunni á því kjörtímabili sem hún var lögð fram. Eins og komið hefur fram rekst þetta núna áfram og það er afskaplega ánægjulegt.

Það sýnir líka hvernig heimurinn breytist að við höfðum skipt ógnum sem við töldum vera til staðar í þrjá hluta, í þrjá flokka. Ég man að við töldum minnstu hættuna á því sem var í þriðja flokknum en þar voru hryðjuverkaógnir og hernaðarógnir. Nú eru hernaðarógnir einar eftir þar og búið að færa hryðjuverk í efri flokk og það jafnvel áður en þau miklu hryðjuverk sem við höfum horft upp á undanfarnar vikur áttu sér stað.

En það er einmitt í því sambandi sem mig langar að nefna að í tillögum þingmannanefndarinnar var, ef ég má orðað það svo, virðulegi forseti, hugmyndinni um þjóðaröryggisráð velt upp. Við lögðum það ekki til heldur var þeirri hugmynd velt upp hvort rétt væri að hafa slíkt ráð. Núna rétt áðan sagði hæstv. utanríkisráðherra að hún hygðist flytja tillögu um slíkt ráð sem mundi fylgja því eftir og síðan þyrfti að endurskoða þjóðaröryggisstefnuna kannski á fimm ára fresti.

Ein hugmyndin með þjóðaröryggisráði, og það skiptir gífurlega miklu máli í því sem við lærðum um það, er að þetta sé ráð sem hittist reglulega og það séu allir vanir því að hittast til dæmis á þriðjudagsmorgnum eða eitthvað slíkt, þá sé farið í þjóðaröryggisráð. Og þjóðaröryggisráð ætti ekki aðeins kallað saman þegar það kemur upp vá heldur þarf það alltaf að vera starfandi. Það þarf að koma saman til dæmis einu sinni í mánuði. Þetta er ekki þjóðaröryggisráð sem á einungis að kalla saman þegar eitthvað kemur upp.

Þarna þurfa að vera fulltrúar þeirra stólpa í þjóðfélaginu sem skipta máli, pólitískt og embættislega séð. Fólk þarf að læra að vinna saman. Það er eitt af því sem mér fannst ég verða illilega vör við í þessari vinnu, þ.e. hvað íslenska stjórnkerfinu virðist ganga illa að vinna saman. Í okkar litla landi erum við með mörg ráðuneyti og það er verið að togast á um hvort þetta sé mitt hlutverk eða þitt.

Ég held að þjóðaröryggisráð skipti miklu máli í því að reyna að toga þetta saman. Ég held að það geti kannski orðið til að hjálpa okkur í hinu daglega amstri, ef ég mætti komast svo að orði.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í nefndaráliti utanríkismálanefndar kemur þetta fram um þjóðaröryggisstefnuna, með leyfi forseta:

„Á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan fyrrnefndri þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu var komið á fót hafa viðsjár verið miklar í alþjóðamálum, ekki síst hafa öryggismál í Evrópu tekið örum breytingum á síðustu missirum. Átökin í Úkraínu og innlimun Krímskaga […]“

Virðulegi forseti. Í þessari útlistun er enn lögð áhersla á hin klassísku varnarmál, en loftslagsmálin skipta líka máli. Það er fjárhagsógn. Sárin eftir áfallið sem við urðum fyrir 2008 eru ekki gróin. Hin klassísku varnarverkefni skipta verulegu máli og við megum ekki missa sjónar af því, á samstarfsaðilum okkar í NATO í Evrópu, í Bandaríkjunum með samningnum frá 1951. Þetta skiptir allt miklu máli en við megum ekki einblína á það. Við þurfum að átta okkur á því að við lifum í allt öðruvísi heimi.

Við þurfum að vinna saman. Við þurfum að vinna saman innan lands og við þurfum að vinna með öðru fólki. Og vonandi verður þessi stefna til þess að hjálpa einhverju landi í framtíðinni.