145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[19:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum hér í síðari umr. um tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, fór í ræðu sinni hér áðan ákaflega vel yfir starfið sem unnið hefur verið í nefndinni og rakti þar þær breytingar sem nefndin leggur til á þingsályktunartillögunni.

Það er engin launung — öllum sem fylgdust með fyrri umr. um þetta mál, bæði á þessu þingi en einnig á því síðasta — að þá voru þingmenn Vinstri grænna ansi ósáttir við þá áherslu sem birtist í þingsályktunartillögunni og töldu að gera þyrfti ýmsar breytingar og að þingsályktunartillagan endurspeglaði ekki nægjanlega vel vinnu þingmannanefndar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir var í forsvari fyrir.

Í starfi nefndarinnar fór hins vegar fram gríðarlega góð umræða um þetta og líkt og fram hefur komið eru gerðar breytingartillögur. Eins og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir fór ágætlega yfir voru ákveðnir þættir teknir þar inn; aðallega það sem var sett í flokk númer tvö og er hægt að sjá í viðauka, eða fylgir upprunalegu þingsályktunartillögunni. Þetta eru þættir sem snúa til dæmis að fjármála- og efnahagsöryggi, skipulegri glæpastarfsemi, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og fleiru.

Með því að taka þessa þætti inn í þjóðaröryggisstefnuna þá er komin miklu breiðari sýn á þjóðaröryggi sem að mínu mati er mjög nauðsynlegt að sé til staðar. Það er ekki einungis mitt mat því að líkt og fram hefur komið tóku aðrir nefndarmenn ekki bara undir það heldur voru því fyllilega sammála að þetta breikkaði þjóðaröryggisstefnuna og væri til bóta.

En eftir stendur að við í Vinstri grænum höfum aðra sýn á það sem að þessu lýtur, þ.e. þegar kemur að hernaðar- og varnarmálum og þeim þætti þjóðaröryggisstefnunnar. Þetta kom strax mjög skýrt fram í bókun fulltrúa Vinstri grænna í þingmannanefndinni um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og kemur fram í fylgiskjali IV með þingsályktunartillögunni. Þar kemur fram að það er skýr stefna VG að Ísland sé herlaust land og standi utan hernaðarbandalaga og að fulltrúar VG í nefndinni standi því ekki að þeim tillögum nefndarinnar sem lúti að eða leiði að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu; en studdu sem sagt tillögur þingmannanefndarinnar að öðru leyti.

Líkt og ég fór yfir þá fannst okkur, þegar við sáum þingsályktunartillöguna, þegar henni var dreift, að þarna væri einmitt allt of mikil áhersla á þennan þátt. En eins og ég rakti hér áðan og einnig formaður hv. utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, voru gerðar breytingar á þjóðaröryggisstefnunni í vinnu nefndarinnar. Vegna þeirra miklu breytinga sem lagðar eru til hefði að mínu mati verið fráleitt að ég hefði ekki skrifað undir nefndarálitið, en ég geri það með þessum fyrirvara vegna sérstöðu okkar í Vinstri grænum þegar kemur að NATO.

Það er verið að stíga rosalega stórt skref í átt til þess að víkka öryggishugtakið til muna og áherslan er ekki lengur eingöngu á hernaðarlegar varnir. Það var búið að taka inn og nefna þætti eins og umhverfis- og öryggishagsmuni Íslands á norðurslóðum og í upphaflegu tillögunni voru þættir, sem við í Vinstri grænum höfum reyndar litið á sem rosalega mikilvægt atriði, sem snúa að því að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. En það er verið að taka inn miklu fleiri þætti sem snúa ekki síður að öryggishagsmunum okkar hér innan lands.

Við í VG munum því styðja þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til. En við munum hins vegar sitja hjá við lokaafgreiðslu á málinu. Það, líkt og ég kom inn á hér áðan, snýr að sýn okkar og stefnu minnar hreyfingar hvað varðar veru okkar í NATO. Það má kannski segja að það hafi langt í frá verið sjálfgefin niðurstaða að við kæmumst á þennan stað. Þessi niðurstaða er annars vegar möguleg vegna góðrar vinnu sem fyrst var unnin í þingmannanefndinni — undir forustu Valgerðar Bjarnadóttur, þar sem við getum kannski sagt að málaflokkurinn hafi verið kortlagður gríðarlega vel, þar sem þær ógnir sem að Íslandi geta steðjað í mjög víðu samhengi voru settar mjög skýrt fram — og hins vegar vegna vinnu hv. utanríkismálanefndar.

Mig langar í því samhengi að þakka formanni nefndarinnar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem var tilbúin til þess að gera málamiðlanir og hafa forgöngu fyrir því að gera það að tillögu nefndarinnar að fleiri þættir væru teknir inn í þjóðaröryggisstefnuna. Málið hefur tekið þeirri breytingu í vinnu nefndarinnar að frá því að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vorum mjög mótfallin þeirri stefnu sem sett var fram, þó með þeim undantekningum að telja einstakar greinar þar vera mjög góðar, erum við komin á þann stað að standa hér með hv. utanríkismálanefnd að breytingu á stefnunni og munum því sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Ég held að það hafi alls ekki verið sjálfgefin niðurstaða að við kæmumst á þann stað og ég held að þetta muni skipta máli inn í framtíðina. Það skiptir máli að vera með þjóðaröryggisstefnu sem í grófum dráttum er þannig að allt hið pólitíska litróf hér á Alþingi geti fellt sig við hana og sé í það minnsta ekki á móti henni. Ég held því að okkur hafi tekist nokkuð vel upp í þessari vinnu og ég vona að okkur takist þetta í framhaldinu í fleiri málum. Það er greinilegt að með góðum vilja og með því að allir slái af sínum ýtrustu kröfum er hægt að ná nokkuð góðri samstöðu um mál. En það krefst auðvitað mikillar vinnu. Það er ekki neinum blöðum um það að fletta.

En ég get alla vega ekki annað sagt en að ég sé mjög sátt við það hvernig þessu máli hefur undið fram og hvaða lendingu mér sýnist við vera að ná. Ég viðurkenni að ég var mjög neikvæð hér við fyrri umr. En vinnan hefur verið góð og hefur skipt gríðarlega miklu máli.

Ég vil að lokum þakka félögum mínum í utanríkismálanefnd fyrir þá vinnu og að endingu aftur — ég er að verða hálfmærðarleg í garð hv. formanns nefndarinnar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur — þakka það að hún skyldi vera tilbúin til umræðu um að gera málamiðlanir, að tala fyrir breytingum. Það skiptir gríðarlega miklu máli og við munum koma til með að búa að því í framtíðinni.