145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[19:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Til þess að halda áfram á svipuðum slóðum og hv. síðasti ræðumaður lauk máli sínu ætla ég að vera pínulítið mærðarlegur og þakka öllum sem hafa komið að þessu verki í gegnum árin, frá því þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, setti þingmannanefndina af stað, þeim sem stóðu að því verki í þingmannanefndinni og síðan hér í þinginu í utanríkisnefnd.

Ég er sammála þeim sem hafa talað og hafa lýst því að hér væri um merk tímamót að ræða þar sem þingið er að setja landinu þjóðaröryggisstefnu í fyrsta sinn. Við höfum auðvitað haft stefnu, og stefnur ef svo má að orði komast, um flesta þá málaflokka sem þarna er um að ræða, en þarna eru hlutirnir settir í annað samhengi. Ég held að það sé líka hollt fyrir okkur í umræðunni að víkka út öryggishugtakið eins og gert er í þessari vinnu þannig að horft sé til þeirra þátta sem geta skapað ógn eða hættu fyrir landið og landsmenn og reynt að sjá hvernig hægt er að bregðast við þeim. Þá er eðlilegt að taka undir hina ólíku þætti eins og gert er í þessari tillögu, bæði atriði sem varða hefðbundnar landvarnir og öryggismál en líka þætti sem eru af efnahagslegum og heilsufarslegum og umhverfislegum toga.

Við erum vissulega að ljúka merkum áfanga með því að afgreiða þessa tillögu. Það er líka áhugavert og merkilegt að horfa til þess hversu víðtæk samstaða hefur þó náðst um þá þætti sem þarna er fjallað um. Auðvitað felur það í sér ákveðnar málamiðlanir, en engu að síður er niðurstaðan með þeim hætti að ekki þarf að velkjast í vafa um samstöðu um grundvallarþætti. Í raun og veru eru einu atriðin þar sem fram kemur raunverulegur skoðanamunur annars vegar afstaðan til Atlantshafsbandalagsins og hins vegar varnarsamstarfsins við Bandaríkin, og það eru ekki nein ný tíðindi í því. Það hefur auðvitað verið yfirlýst stefna Vinstri grænna og forvera þess flokks að Ísland ætti að standa utan NATO og segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Þannig að það eru ekki nýjar fréttir. Það eru hins vegar ánægjuleg tíðindi að víðtæk samstaða er milli allra annarra flokka um meginþættina í þessu og líka hvað varðar þessi tvö atriði, varnarsamstarfið og aðildina að NATO. Það er áhugavert að sjá að Píratar skrifa undir þetta með þessum hætti því að það hefur kannski ekki legið alltaf skýrt fyrir hver afstaða þess nýja flokks væri í þessum efnum.

Um það hvernig við höldum áfram með verkefnið þá segi ég: Við höfum vissulega náð áfanga hérna. Við atkvæðagreiðslu á morgun og við samþykkt þessarar stefnu er merkur áfangi kominn, en auðvitað þarf að halda vinnunni áfram. Það þarf að útfæra stefnuna á ýmsum sviðum og það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér með hvaða hætti það verði best gert. Ég styð hugmyndina um stofnun þjóðaröryggisráðs, en það á eftir að ræða það hvernig útfærslan á að verða á því apparati. En ég held að það sé mikilvægt að hafa einhvers konar vettvang, ef við getum kallað það svo, til að halda stefnumörkuninni áfram þar sem, eins og menn hafa hér lýst, hægt er að kalla saman fulltrúa bæði úr embættiskerfinu og stjórnmálalífinu til þess að vinna áfram að stefnumörkun. Ég held að bæði þurfum við að fylla betur inn í þá stefnu sem hefur verið mörkuð hér og eins að hafa vettvang til þess að ræða breytingar sem kunna að verða og þær höfum við svo sannarlega séð á undanförnum árum, breytingar í umhverfi sem hafa veruleg áhrif á mat okkar á öryggishagsmunum og horfum í alþjóðlegu samhengi.

Ég þarf ekkert að fara nánar út í það, ekki í smáatriðum, en ég vildi þó nefna, eins og fleiri hafa gert í þessari umræðu, breytingar sem hafa átt sér stað í Austur-Evrópu. Breytt og árásargjarnari stefna stjórnvalda í Rússlandi hefur vakið upp óþægilegar minningar og minnt okkur á að friður í okkar heimshluta er ekki sjálfgefinn og það þarf ekki mikið að gerast til þess að hlutir fari í bál og brand. Við sjáum líka aukna ógn af hryðjuverkum sem þarf að bregðast við. Síðan er á það að líta að þeir miklu fólksflutningar sem við sjáum við Miðjarðarhafið í dag og flóttamannastraumur til Evrópu hefur áhrif í þessu samhengi. Það hefur skapast þrýstingur og álag í Evrópu sem getur leitt til viðkvæmara pólitísks ástands að ýmsu leyti. Við sjáum það á umræðum, meðal annars á vettvangi Evrópusambandsins, hvernig þjóðir hafa brugðist misjafnlega við. Það er alveg ljóst að þetta er eitt af þeim atriðum sem reynir mjög á þanþol Evrópusambandsins um þessar mundir. Allt getur þetta og hefur áhrif á mat okkar á öryggismálum okkar í hinu breiða samhengi.

Menn verða líka, þó að það hafi kannski fengið minna vægi í þessari umræðu og á kannski betur heima í sértækari umræðu um öryggismál, að hafa netöryggið í huga. Við verðum ekki kannski vör við það svo mikið frá degi til dags, en staðreyndin er sú að netárásir af ýmsu tagi, af ýmsum uppruna og í ýmsum tilgangi, eru daglegt brauð og skapa álag, geta skapað hættu. Þrátt fyrir að þessi máli hafi oft borið á góma í umræðum hér í þinginu og á vettvangi þingnefnda hefur maður á tilfinningunni að við þurfum að gera töluvert betur í því að verja okkur að því leyti. Netárásir geta verið af ýmsum toga, haft ýmsan tilgang. Í sumum tilvikum er um að ræða anga af skipulagðri glæpastarfsemi, í öðrum tilvikum getur verið um að ræða árásir á forsendum hryðjuverkamanna til að skapa eða lama einhver kerfi af hálfu hins opinbera. En netárásir geta líka stafað frá ríkjum og geta haft þann tilgang að skapa upplausn og óróa. Þetta er atriði sem ég held að við þurfum að gefa aukið vægi í stefnumörkun okkar og eftir atvikum að verja meiri fjármunum í; verja meiri fjármunum til þeirra stofnana sem hafa það hlutverk að verja hin ýmsu netkerfi samfélagsins, ýmsa innviði á netinu, hvort sem er um að ræða í stjórnkerfinu, fjármálakerfinu, á sviði orkumála og svo fjölmörgum öðrum sviðum þar sem mikilvægir innviðir geta verið viðkvæmir fyrir árásum úr netheimum, ef svo má að orði komast.

Eins liggur fyrir að við þurfum að velta fyrir okkur, og það segi ég ekki til þess að kasta rýrð á þá vinnu sem liggur að baki þessari þingsályktunartillögu, og taka nánari umræðu og afmarkaðri um þau viðfangsefni sem við mundum venjulega skilgreina á verksviði innanríkisráðuneytisins. Þá er ég að hugsa um viðbrögð við hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og þess háttar. Ég hef lengi vakið athygli á því að þær breyttu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir kalli á það að ákveðnar löggæslustofnanir sem hafa hlutverki að gegna á því sviði, eins og landamæralögregla, alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, greiningardeild og aðrar slíkar deildir, þurfa betri aðstæður til þess að vinna sína vinnu. Það hefur verið stigið skref í átt til þess að efla þessa starfsemi á vegum lögreglunnar, en ég held að við þurfum að gera betur á því sviði. Af ýmsum ástæðum hefur álag á þessar stofnanir aukist mjög mikið og ekkert útlit er fyrir að það muni breytast neitt á næstu missirum. Við því þurfum við að bregðast. Við þurfum að hafa þau tæki og þann mannskap sem til þarf til þess að skapa það öryggi sem okkur er mögulegt að gera. Við munum aldrei skapa fullkomið öryggi á öllum sviðum, en það eru ákveðin atriði sem við þurfum að huga að í þessu sambandi. Það er ekki forsvaranlegt að láta það eiga sig.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti tek ég undir góð orð ræðumanna hér í dag varðandi þá vinnu sem átt hefur sér stað á vettvangi utanríkismálanefndar. Það er rétt, sem kom fram í máli hæstv. formanns nefndarinnar, að á síðasta vetri þegar ég átti sæti í utanríkismálanefnd lögðum við töluverða vinnu í þetta, en aðstæður voru með þeim hætti að ekki var unnt að ljúka vinnunni þá. Ég held að málið hafi ekkert versnað við það að bíða eins og eitt þing eftir afgreiðslu. Mér sýnist að þær breytingar sem hafa verið gerðar séu til bóta og til þess fallnar að skapa meiri sátt um hina endanlegu niðurstöðu þannig að ég tel að það sé jákvætt.

Ég vil gera það að mínum lokaorðum, hæstv. forseti, að ég tel að þrátt fyrir að það sé vissulega áfangi að ljúka samþykkt þjóðaröryggisstefnu hér á Alþingi þá er það ekki svo að við getum sett málið í skúffuna og látið umræður um þjóðaröryggismál sofna. Við þurfum að halda þeim vakandi. Við þurfum að gera það bæði þegar við tökumst á við hinn stofnanalega þátt, sem lýtur þá að stofnun þjóðaröryggisráðs og því fyrirkomulagi öllu, og líka þegar við veltum fyrir okkur efnisinnihaldinu. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að bæði pólitíkin og embættismannakerfið séu með á nótunum og samstillt í því að bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi og eru, eins og við höfum séð, mjög breytilegar; atburðir geta orðið sem breyta myndinni hratt og þá þurfum við að hafa einhvers konar ferla eða fyrirkomulag, vettvang, til að ræða breytingarnar og taka afstöðu til þeirra mála sem upp koma.

Almennt að lokum, hæstv. forseti, þá er það svo, eins og ég sagði í upphafi, að við höfum haft markaða stefnu á þeim sviðum sem þarna er verið að fást við. En með því að færa það í þennan búning erum við væntanlega að taka höndum saman um að samstilla þessa stefnu okkar til lengri tíma. Það er óheppilegt þegar þjóðaröryggismál eru til umræðu að það verði miklar sveiflur. Það er betra að stefna sé mörkuð til lengri tíma og hún taki ekki endilega sveiflukenndum breytingum eftir því hvernig úrslit kosninga verða, þannig að þegar hægt er að marka stefnu sem á að gilda um lengri tíma þá er það mjög jákvætt. Mér sýnist að allir sem hafa komið að þessari vinnu hafi unnið með það að leiðarljósi og þess vegna skilar þessi vinna góðri niðurstöðu í meiri sátt en flestir bjuggust við í upphafi.