145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:04]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill af þessu tilefni segja að hann getur ekki kveðið upp úr um síðari tvær spurningar hv. þingmanns varðandi hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þó að forseti komi nú ekki auga á það að þessar reglur hafi verið brotnar, en kýs að fara yfir þessi mál betur. Hitt er hins vegar hárrétt og er kjarni máls að við höfum orðið vör við það á síðustu vikum að uppi er mismunandi skilningur einstakra hv. þingmanna og fleiri aðila á því nákvæmlega hvað reglurnar um hagsmunaskráninguna þýða.

Vandi forseta í þessu máli hefur verið af ýmsum toga, m.a. að þegar reglurnar voru settar á sínum tíma í forsætisnefnd fylgdi þeim í sjálfu sér engin greinargerð til útskýringar á einstökum atriðum sem hægt væri að styðjast við. Þess vegna eru það áform forseta að yfir þessi mál verði sérstaklega farið. Það er auðvitað ekki gott að málin séu í þeirri stöðu að uppi sé mismunandi skilningur á því hvað reglurnar um hagsmunaskráningu þýða í raun. Ein ástæða hagsmunaskráningarinnar er auðvitað að við viljum hafa þessa hluti í lagi til að þingmenn sjálfir geti verið alveg vissir um það hvernig þeir eigi að bregðast við ýmsum álitamálum sem kunna að koma upp varðandi hagsmunaskráningu. Þess vegna er það ásetningur forseta að yfir þessi mál verði farið, m.a. til þess að skýra reglurnar þannig að öllum hv. þingmönnum og öðrum sé ljóst hvað þær þýða í raun og veru.

Varðandi hagsmunaskráninguna að öðru leyti vill forseti segja að það er undir þingmönnum sérstaklega komið með hvaða hætti þeir umgangast hagsmunaskráninguna, að öðru leyti en því að þeim ber auðvitað að fylgja þeim reglum. Það er hins vegar óhægt um vik varðandi eftirlit í þessum efnum. Það blasir til dæmis við varðandi eitt atriði, sem er þó auðvitað ekki eitt af því stærsta sem hefur verið nefnt í þessu sambandi, en forseti tekur eingöngu í dæmaskyni, en það er að eitt af því sem okkur þingmönnum er ætlað að gera er að skrá ferðir, boðsferðir, þ.e. ferðir sem greiddar eru af öðrum aðilum en Alþingi eða hinu opinbera. Það er hlutur sem er mjög erfitt fyrir þingið að fylgjast með. Þó að þingið hafi einhverjar hugmyndir um það stundum að þingmenn séu erlendis er það ekki augljóst mál að þingið geti gengið eftir því í hvert skipti og spurt þingmenn um það hvort þeir séu að fara á eigin vegum, á vegum hins opinbera eða með hvaða hætti. Þetta verða þingmenn auðvitað að eiga líka við sjálfa sig. Þingmenn eru í mjög sérstakri stöðu. Þingmenn sækja sitt umboð, sitt vald, til almennings og eiga þess vegna að standa reikningsskil gagnvart almenningi.

Að þessu sögðu vill forseti árétta að það er ásetningur hans að fara yfir málin að þessu gefna tilefni en telur hins vegar að það sé tilefni fyrir okkur með almennari hætti að fara yfir þessa hluti.

Það er til dæmis athyglisvert og kemur nú upp í huga forseta að þessum orðum sögðum, að forseti hefur ekki fram undir þetta fengið ábendingar eða spurningar, a.m.k. hefur þeim ekki verið beint að forseta sjálfum, um það hvernig beri að túlka þau atriði sem hafa verið hvað mest í umræðunni. Hins vegar vill forseti sömuleiðis segja að hann hefur viljað ýta því að þingmönnum að þeir séu vakandi yfir því að þeir sjálfir skrái réttar upplýsingar í hagsmunaskráninguna. Þingmenn rekur kannski minni til að það kom tölvupóstur frá forseta og skrifstofu Alþingis til alþingismanna fyrir allnokkrum vikum, ef ekki mánuðum, þar sem þingmenn voru hvattir til þess að fara yfir hagsmunaskráningu sína. Það var ekki að neinu sérstöku gefnu tilefni að öðru leyti en því að forseti hefur sjálfur áttað sig á því að menn þurfa hver um sig að fylgjast nákvæmlega með hagsmunaskráningu sinni. Breytingar á fjárhagslegum högum og öðrum högum þingmanna gera líka að verkum að þingmenn verða að vera mjög vakandi yfir skráningunni.

Þetta er orðið lengra svar en forseti hafði hugsað sér í upphafi, en þegar farið er að ræða um þessa hluti koma jafnóðum upp í koll þeirra sem um þau ræða, líka koll forseta, ýmis atriði og vildi hann nýta þetta tækifæri sem hér gafst til að koma þeim á framfæri. Um leið, og það verða lokaorðin í þessari atrennu að minnsta kosti, vill forseti segja hv. þingmönnum að hyggja að eigin hagsmunaskráningu, þetta er mælt af góðum hug forseta, hyggja að sinni eigin hagsmunaskráningu, og leita þá upplýsinga á skrifstofu Alþingis sem er reiðubúin til þess að aðstoða við það og hefur það raunar komið fram í hvatningu forseta fyrr á þessum vetri.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna