145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki viljað taka til máls undir þessum lið undanfarið þar sem efnislegar umræður hafa farið fram og því hefur það dregist að ég þakki forseta heils hugar fyrir að koma mér til varnar hér fyrir nokkrum vikum, líklega þremur vikum síðan, þegar það var gert að umræðuefni að mér fjarstöddum að ég væri staddur í New York á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og spurt hverju það sætti. Nú var það ekki ætlan mín á þeim tíma að upplýsa alla þjóðina um að ég væri þar á eigin reikning og konan mín með mér, en fyrst að þessi fyrirspurn kom fram af hendi hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur er sjálfsagt að ánýja það að svona var málið vaxið.

Það er svo að þetta hafði komið fram á þingflokksformannafundi, líklega mánudaginn áður en ferðin átti sér stað. Ég veit að það er ekki sem best samkomulagið í Samfylkingunni um þessar mundir en ég hélt nú samt að farið væri yfir helstu mál sem þingflokksformenn ræddu. Ég vil að endingu segja að það var upplifun að vera á þessari ráðstefnu. Ég var (Forseti hringir.) eini þingmaður Íslendinga þarna og ég vil beina því til þingmanna sem hafa brennandi áhuga á því málefni að það er alveg þess virði að eyða svolitlu af peningum sínum til að vera þarna og taka þátt í því merka starfi sem þar fer fram.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna