145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil bæta við það sem ég sagði áðan, vegna þess að menn eru líka að ræða hér um hagsmunaskráningu þingmanna, að það er engu líkara, og það er sú hugmynd sem kviknar í kolli manns, en að stjórnvöld séu ef til vill að bíða eftir því að sjá hvað komi út úr áframhaldandi umfjöllun upp úr Panama-skjölunum, að menn séu einhvern veginn upp á von og óvon að sjá hvað verði þar til að geta brugðist við því þegar þar að kemur.

Ég vona auðvitað að svo sé ekki vegna þess að ég held að menn viti að það er von á frekari umfjöllun upp úr þeim pappírum öllum. Það er þá tækifæri fyrir þingmenn og stjórnmálamenn sem það vilja, þá væntanlega fram að þeim tíma, til að leggja öll spil á borðið. Ég velti fyrir sér hvort menn hafi gert það. Eru menn búnir að setja allt upp á borðið í þessum efnum? Er verið að bíða eftir því að eitthvað komi í ljós sem kannski enginn veit um?

Það er nokkuð sem við mundum gjarnan vilja fá að vita vegna þess að það hefur svo sannarlega ekki verið þannig í aðdraganda þeirrar umræðu og orrahríðar sem við höfum gengið hér í gegnum (Forseti hringir.) að menn hafi verið með beinlínis allt uppi á borðum sem varðar kjósendur.

Ég vil bara fá að segja að lokum, virðulegur forseti, ég vona að mér fyrirgefist að fara aðeins yfir tímann, að auðvitað (Forseti hringir.) eiga menn að skoða þessi mál þannig að það sé kjósendum í vil, að setja fram meiri upplýsingar en minni og vera ekki alltaf að reyna að passa upp á sjálfa sig.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna