145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Róberti Marshall sem talaði um að við eigum að gefa meira upp en minna. Ástæðan er sú að orðið hefur gríðarlegur trúnaðarbrestur sem náði nýjum hæðum í síðustu viku millum þessarar stofnunar hér og kjósenda. Hvernig ætlum við að reka þetta samfélag með slíkum trúnaðarbresti á milli þessara mikilvægu aðila, þ.e. almennings í landinu og síðan fulltrúa hans á löggjafarsamkomunni?

Við eigum núna að gera hlé á þessum fundi og setjast yfir það hvernig við getum breytt þessu með því að auka hér upplýsingagjöf þegar kemur að þingmönnum og auka kröfur á okkur um upplýsingar og síðan hvenær verði þá kosið þannig að flokkarnir geti endurnýjað umboð sitt frá kjósendum.

Það er ekki hægt að segja eitt í síðustu viku, koma svo í vikunni þar á eftir og vonast til þess að menn geti beðið þetta af sér. (Forseti hringir.) Þannig byggjum við ekki upp traustið aftur, að bíða hlutina af okkur. Við gerum það með því að taka forvirkt á málinu.